Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur nefnt ýmis dæmi um er málflutningur svonefndra umhverfisverndarsinna ekki alltaf sannleikanum samkvæmur. Nýlega hóf hópur umhverfisverndarsamtaka, þeirra á meðal Greenpeace, auglýsingaherferð gegn erfðatækni. Í einni auglýsingunni er spurt: Hver ætlar sér að leika Guð á 21. öldinni? Í auglýsingunni er jafnframt mynd af mús með það sem virðist vera mannseyra á bakinu. Í skýringartexta segir: „Þetta er raunveruleg mynd af erfðabreyttri mús með mannseyra á bakinu.“ Í auglýsingunni er jafnframt, eins og fégírugra umhverfisverndarsamtaka er siður, tilfinningaþrunginn boðskapur um að erfðaefni mannsins sé síðasta ósnortna svæðið í náttúrunni og spurt hver hafi skipað líftækniiðnaðinn Guð næstu aldar.
Nú er sannleikurinn sá að myndin af músinni er ófölsuð (sem kann að koma einhverjum á óvart þegar alþjóðleg fjárplógsfélög eins og umhverfisverndarsamtök eiga í hlut). En það er hins vegar ekki rétt eins og fullyrt er í auglýsingum umhverfisverndarsamtakanna að músin beri mannseyra á bakinu. Líkani af mannseyra ásamt mannsfrumum var komið fyrir með skurðaðgerð á baki músarinnar. Þar náðu frumurnar að laga sig að eftirmyndinni. Þessi tækni kann að hjálpa þeim sem fæðast án eyra eða missa eyra í slysi. Með því að rækta eftirmynd á þennan hátt úr frumum sjúklingsins eru líkur á því að líkami hans hafni hinu ágrædda eyra minni en ella. Þessi aðferð hefur því engar breytingar á erfðaefni sjúklingsins í för með sér eins og ráða má af auglýsingu umhverfisverndarsamtakanna. Sömu sögu er að segja af músinni. Ef hún fjölgaði sér yrðu afkomendur hennar ekki með mannseyra á bakinu enda hefur ekki verið átt við erfðaefni hennar.
Steven J. Milloy ritstjóri www.junkscience.com ritaði grein um þessa auglýsingu í Washington Times 10. desember og nefnir tvær aðrar auglýsingar sem umhverfisverndarsinnar hafa sent frá sér nýlega og er beint gegn framförum í erfðatækni. Þar er einnig farið með rangfærslur. Greinina má lesa á heimasíðu CATO Institute.