Þriðjudagur 28. desember 1999

362. tbl. 3. árg.

Oft er það þannig þegar rætt er um hlutverk ríkisins að þeir sem vilja draga úr ríkisumsvifum þurfa að færa margvísleg rök fyrir máli sínu. Þeir sem vilja hins vegar að ríkið haldi áfram að skipta sér af öllu milli himins og jarðar þurfa ekki að tilgreina neinar ástæður fyrir því. Hefur einhver stuðningsmaður seðlabanka til dæmis greint frá því nýlega hvers vegna íslenska ríkið rekur seðlabanka og gefur út gjaldmiðil? Hvað er það sem mælir með því að ríkið veiti þá þjónustu að gefa út peninga? Ætla mætti að þessi rök séu svo alkunn og margvísleg að það sé að bera í bakafullan lækinn að nefna þau opinberlega. Þótt Vef-Þjóviljinn telji sig fylgjast þokkalega með þjóðmálaumræðunni kannast hann þó ekki við að hafa nýlega heyrt neinn rökstuðning fyrir því að ríkið reki seðlaútgáfu.

Ekki hjálpar saga Seðlabanka Íslands okkur til að skilja hvers vegna ríkið stendur í þessum rekstri. Síðasta afurð bankans, krónan sem gefin var út árið 1981, hefur fallið svo í verði að nú þarf nítján slíkar til að kaupa það sem fékkst fyrir eina árið 1981. Satt best að segja er krónan ekki hirt lengur upp úr götunni nema til að fleygja henni í ruslið. Ástæða þess að bankinn gaf út nýja krónu árið 1981 var sú að gamla krónan hafði rýrnað svo að verðgildi að verðmiðar á hefðbundnum neysluvörum voru hættir að rúma upphæðina. Vissulega hefur tekist betur til undanfarin ár en oft áður, en sagan í heild sinni svarar því ekki hvers vegna ríkið rekur þennan banka.

Fjölmiðlar hafa ekki sýnt málefnum seðlabankans annan áhuga en þann að geta sér rangt til um hver verði næsti bankastjóri. Það er t.d. sama hvað fréttastjóri Sandkorns DV reynir, getgátur hans hafa ekki reynst traustar. Þetta virðast menn álíta mikilvægast, þó ekki hafi verið sýnt fram á að samhengi sé á milli þess hver gegnir stöðu bankastjóra og þess hvernig efnahagslíf þróast hér á landi. Engum dettur hins vegar í hug að spyrja hvaða markmið bankinn hafi sett sér og hvort þau hafi náðst. Til dæmis væri fróðlegt að skoða nánar fylgni milli peningamagns og verðbólgu. Það sem nefnt er verðbólga er auðvitað ekkert annað en verðfall á gjaldmiðli. Nú í lok ársins þarf um 5% fleiri krónur til að kaupa sömu vörur og í byrjun ársins. Af hverju stafar þessi verðbólga (eða verðfall krónunnar)? Á grafinu hér að neðan má sjá þróun peningamagns (M3) og verðbólgu undanfarna tvo áratugi. Þessi mynd ætti að vekja upp ýmsar spurningar.

<!––> <!––>

M3 og verðbólga
M3 og verðbólga

<!––> <!––>