Rökleysur um Ríkisútvarp hefði verið ágætis heiti á grein G. Péturs Matthíassonar og Þorsteins Þorsteinssonar sem birtist í Morgunblaðinu síðasta sunnudag. Að eigin sögn er hlutverk þeirra að koma með innlegg í málefnalega umræðu um framtíðarhlutverk Ríkisútvarpsins. Hins vegar rekst hvað á annars horn þegar farið er að skoða hvaða rök þeir félagar færa fram fyrir „útvarpi í almannaþágu“ eins og þeir kalla það í greininni. Þeir telja ein helstu rökin fyrir tilurð slíkrar stofnunar vera það „sem Bretar kalla „market failure““ og þeir félagar kalla „vanhæfni markaðarins“. Rétt er að benda á að meðal íslenskra hagfræðinga gengur þetta yfirleitt undir heitinu markaðsbrestir og er langt því frá að Bretar einir taki sér þetta í munn, heldur er þetta vel þekkt hugtak í hagfræði og notað af öllum þeim sem um málið fjalla á enskri tungu. Hvers vegna Bretar eru sérstaklega nefndir í þessu samhengi er óskiljanlegt. Þar næst taka þeir félagar þætti David Attenborough um fuglalíf sem dæmi um efni sem ekki yrði framleitt, hvað þá sýnt, ef ekki væri Ríkisútvarp.
Þarna gætir nokkurs misskilnings. Ef þættirnir eru svona góðir, hvers vegna skyldi þá enginn vera tilbúinn til að framleiða þá og horfa á þá? Enda er raunin sú að náttúrulífsþættir eru framleiddir af einkafyrirtækjum út um allan heim og sýndir á einkastöðvum. Jafnvel fyrirfinnast sjónvarpsstöðvar sem sérhæfa sig í slíku efni, s.s. sjónvarp National Geographic, og Planete. Framhjá því er einnig litið að ekki þarf ríkið að reka sjónvarpsstöðvar til að styrkja framleiðslu sjónvarpsþátta.
Annað skýrt dæmi um markaðsbresti telja þeir vera hátt verð á sýningarrétti sjónvarpsefnis, sérstaklega íþróttaefnis. Þetta er hins vegar langt því frá merki um markaðsbrest. Þvert á móti sýnir þetta hæfni markaðarins til að verðleggja það efni sem fólk vill í raun og veru sjá. Áhorfendur gleðjast, auglýsendur gleðjast, framleiðendur efnisins gleðjast og íþróttamenn og eigendur íþróttaliða gleðjast. Þeir einu sem sitja eftir með sárt ennið virðast vera starfsmenn opinberra sjónvarpsstöðva sem ekki eru tilbúnar að borga hærra verð en einhverjir aðrir aðilar, -þrátt fyrir niðurgreiðslur og styrki þeim til handa.
G. Pétur og Þorsteinn nefna því næst sem rök fyrir einhvers konar íhlutun hins opinbera í sjónvarps- og útvarpsþáttagerð en það er framleiðsla menningarefnis (rök sem byggja á öryggishlutverki Ríkisútvarpsins eru vart svara verð og nægir að minna á að sú stofnun hefur hætt starfsemi tímabundið meðan starfsmennirnir stóðu í verkfallsátökum). Hins vegar skjóta þeir sjálfa sig í fótinn þegar þeir fullyrða að þjóðin eigi rétt á fjölbreyttri dagskrá á hóflegu verði og nefna í því samhengi þætti eins og Melrose Place, Star Trek og Bráðavaktina. Hvaða rétt eru mennirnir eiginlega að tala um?
Þá verður þeim tíðrætt um mikilvægi þess að hér starfi hlutlaus fjölmiðill. Þetta er gömul lumma og lífseig. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að fjölmiðill geti nokkru sinni verið algerlega hlutlaus? Allt mat á því hverju skuli útvarpað og sjónvarpað, hvenær og hvernig er alltaf háð einhverju mati. Þeir virðast ætla að starfsmenn Ríkisútvarpsins geti beitt einhvers konar faglegu mati og ástundað fagleg vinnubrögð. Að minnsta kosti má ráða af skrifum þeirra að stjórnmálamenn, sem þó eru lögboðnir yfirmenn stofnunarinnar, eigi ekki af skipta sér af því efni sem hún sendir frá sér. Það er þó enginn hlutlaus og það eina sem tryggt getur málefnalega umræðu í þjóðfélaginu er að hér starfi sem flestir fjölmiðlar þannig að heilbrigð skoðanaskipti geti átt sér stað.