Ef Eyjabakkar og Landsvirkjun væru í einkaeign gætu umhverfisvinir boðið í Eyjabakka á móti Landsvirkjun og reynt þannig að koma í veg fyrir að þar yrði virkjað. Boð Landsvirkjunar í Eyjabakka tæki mið af því hversu miklu munar á hagkvæmni þess að virkja Eyjabakka og næsthagkvæmasta kostinn (að því gefnu að Eyjabakkar séu hagkvæmastir). Væri þessi aðferð notuð þyrftu menn ekki heldur að velta því fyrir sér hvort virkjunin væri hagkvæm eða ekki. Hvorki Landsvirkjun né fylgjendur óbreyttra Eyjabakka væru háð dýrustu tilfinningasemi Íslandssögunnar, byggðastefnunni.
Í vikunni samþykkti Alþingi að selja eyjarnar Málmey í Skagafirði og Elliðaey á Breiðafirði. Steingrímur J. Sigfússon, sem er helsti gagnrýnandi þess hvernig ríkið ætlar að ráðstafa Eyjabökkum, var helsti gagnrýnandi þessarar fyrirhuguðu sölu. Hann er haldinn sömu meinloku og Jóhanna Sigurðardóttir sem er helsti gagnrýnandi reksturs á ríkisbönkum og pólítískrar spillingar sem hún fullyrðir að þrífist innan þeirra. Hún er svo jafnframt helsti andstæðingur þess að bankarnir séu losaðir undan pólítísku valdi með einkavæðingu. Steingrímur hefði getað notað þetta tækifæri til að sýna að honum er alvara með að vernda eigi náttúruna gegn ríkinu, en lét það ógert.
Furðulegt er að þetta ágæta fólk skuli ekki hafa komið fram opinberlega og mótmælt ýmsum smáum einkavæðingum sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Samkvæmt því á t.d. að selja eftirfarandi eignir: Flugafgreiðslu á Kópaskersflugvelli, flugafgreiðslu á Borgarfirði eystri, ásamt tækjageymslu, flugafgreiðslu á Breiðdalsvíkurflugvelli, fasteign við Galtarvita, hlutabréf ríkissjóðs í Flugskóla Íslands hf og fangageymslu að Hamrahlíð 26, Vopnafirði.