Ríkinu lætur illa að standa í rekstri fyrirtækja enda hafa kjörnir stjórnendur þess sýnt lofsverða tilburði til að losa ríkið úr ýmiss konar rekstri að undanförnu. Betur má þó ef duga skal. Meðal fjölmargra slíkra verkefna sem bíða verður að telja rekstur heilbrigðisstofnana vera með þeim brýnni, eins og dæmin sanna. Á undanförnum árum hafa skattborgarar þurft að horfa upp stóraukin framlög ríkisins til þessa atvinnurekstrar. Árangur þessa fjárausturs hefur hins vegar látið á sér standa. Þjónusta heilbrigðisstofnana er enn á þann veg að langir biðlistar eru um margar aðgerðir, valfrelsi viðskiptavina um gæði eða umfang meðferðar við tilteknum vandamálum er hverfandi, ekkert verð er á þjónustunni og leiðir til hagræðingar eru því torfærnar. Óvissa í rekstrinum er stöðug vegna handahófskenndra afskipta stjórnmálamanna og einokun ríkisins í heilbrigðisþjónustu leiðir til þess að atvinnugreinin fer á mis við þann hvata til nýbreytni og betri reksturs sem fæst með samkeppni.
Enn bætast við vísbendingar um að ríkið eigi að losa sig úr rekstri heilbrigðisstofnana. Landlæknir gaf í vikunni út skýrslu um ástandið á ríkisspítölum. Skýrslan hefur eðli máls samkvæmt einkum að geyma upplýsingar um atriði sem betur megi fara. Þar kennir margra grasa. Meðal annars er því haldið fram að gæðaeftirlit og vinnuferli þróist hægar hér á landi en annars staðar og því fari bil breikkandi milli hérlendra og erlendra sjúkrahúsa. Þá segir að öryggisgæslu sé verulega ábótavant og að tækjakostur sé úreltur og óhagkvæmur. Með skýrslunni er einnig upplýst að vegna hraðari og markvissari greiningar vandamála leggist hlutfallslega mun færri sjúklingar inn á spítala en áður. Þrátt fyrir það vex hlutur heilbrigðiskerfisins af ríkisútgjöldum ár frá ári.
Í sem stystu máli er hefur núverandi rekstrarfyrirkomulag beðið skipbrot, það liggur fyrir. Samt sem áður er enn þrjóskast við og ríkið virðist frekar vera að herða grip sitt á þessum atvinnurekstri. Eftir að Landakotsspítali, sem lengi vel var rekinn svo til án afskipta ríkisins, var innlimaður í Borgarspítala hefur áhersla verið lögð á að innlima það sjúkrahús í Ríkisspítala. Stjórnvöld heilbrigðismála virðast því þeirrar trúar að af sameiningu og stærð leiði sjálfkrafa betri rekstur. Á meðan menn eru uppteknir við að hrinda hverri slíkri töfralausninni á fætur annarri í framkvæmd er ekki við því að búast að horfst verði í augu við staðreyndir og ríkið verði dregið út úr rekstri heilbrigðisstofnana.