Fimmtudagur 16. desember 1999

350. tbl. 3. árg.

Eins og greint var frá hér í blaðinu fyrir nokkrum dögum hafa nú þegar birst um 800 stjórnvaldsfyrirmæli á þessu ári í B-deild stjórnartíðinda. Í B-deildinni birtast nýjar reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Það er því ekki alveg út í hött að nota umfang B-deildarinnar til að mæla reglugerðagleði ríkisins. Þegar blaðsíðufjöldi B-deildarinnar er skoðaður frá 1944 til og með 1998 kemur í ljós að fjöldinn var nokkuð stöðugur frá 1944 til 1970 eða um 500 síður á ári. Þá fór að síga á ógæfuhliðina. Undanfarin ár hefur þurft um 2000 síður til að koma öllum fyrirmælum stjórnvalda  fyrir.

Afstaða Samfylkingarinnar til sölu ríkisbankanna er einkennileg þótt hún sé ekki einkennilegri en afstaða fylkingarinnar til annarra mála. Að vísu var ljóst þegar við upphaf samkrulls Alþýðuflokks, Kvennalista og flokksbrota Alþýðubandalags og óháðra að niðurstaðan yrði sú að þessu samfloti myndi reynast ókleift að bjóða kjósendum upp á skoðun á sölu ríkisbankanna. Þá sem fyrr var ljóst að fyrrverandi vinsælasti tilvonandi leiðtogi fylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, byði sig meðal annars fram til þingsetu undir þeim formerkjum að hún myndi berjast gegn því að rekstur banka yrði færður frá ríkisvaldinu. Jóhanna hefur enda, ásamt núverandi nokkurs konar leiðtoga Samflotsins, Margréti Frímannsdóttur, látið hástöfum yfir tilvonandi sölu hlutabréfa í Landsbanka og Búnaðarbanka. Arftaki Alþýðubandalagsins, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, lét heldur ekki sitt eftir liggja enda er stefna þeirrar hreyfingar skýr að þessu leyti. Eftir að stjórnarandstaðan hafði látið móðan mása í langdreginni umræðu um málið á Alþingi allan síðastliðinn fimmtudag og hluta föstudags var komið að því að greiða atkvæði um málið síðar þann dag. Ekki einasta greiddi enginn þingmaður Samfylkingarinnar atkvæði gegn því að selja umrætt hlutafé heldur greiddu þeir allir atkvæði með sölunni, nema Jóhanna Sigurðardóttir, efsti maður Fylkingarinnar í Reykjavík, og félagi hennar Sigríður Jóhannesdóttir. Þær sátu hjá. Margrét Frímannsdóttir var fjarstödd. Orðin og gjörðirnar hafa farið undarlega saman hjá Samfylkingunni í þessu máli.