Þrátt fyrir að Íslendingar hafi búið við trúfrelsi frá árinu 1874 er það enn ekki að fullu virt hér á landi. Þrátt fyrir að boðið sé í 64. gr. stjórnaskrár lýðveldisins að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna og að öllum sé frjálst að standa utan trúfélaga þá leyfir ríkisvaldið sér ítrekað að banna öllum landsmönnum iðju á borð við verslunarhald og skemmtanahald á tilteknum dögum á grundvelli trúarkenninga eins af trúfélögum landsmanna, hinnar evangelísku lútersku kirkju. Þannig hefur lögreglustjórinn í Reykjavík tilkynnt borgarbúum að allt skemmtanahald þeirra sé bannað laugardaginn 25. desember 1999 auk þess sem „öllum sölustöðum skal lokað allan daginn“ eins og segir í boði lögreglustjóra. Að auki er verslun og skemmtanahald bannað hluta úr nokkrum dögum í kringum umrædda dagsetningu, einnig samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.
Nú er það svo að langflestir landsmenn tilheyra þessu trúfélagi sem haldið er fram að verið sé að taka tillit til með þessum hætti, auk þess sem félagið hefur stöðu þjóðkirkju á Íslandi og ber ríkisvaldinu að því leyti að styðja það og vernda, sbr. 62. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar verða hagsmunir meirihlutans hér sem endranær fráleitt taldir réttlæta slíka takmörkun á sjálfsögðu athafnafrelsi minnihluta landsmanna, auk þess sem telja verður umdeilanlegt að það að banna þeim sem vilja versla eða skemmta sér á umræddum degi þjóni þeim tilgangi að styðja og vernda hina evangelísku lútersku kirkju. Trúfrelsi felur enda ekki eingöngu í sér að borgararnir skuli frjálsir geta valið sér trúfélög eða staðið utan þeirra, heldur einnig að þeir geti í friði iðkað trú sína í samræmi við eigin sannfæringu. Ríkið ætti ekki að segja mönnum hvernig þeir skuli eða skuli ekki iðka trú sína?
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert íslenskum stjórnvöldum grein fyrir þeirri skoðun sinni að reglur um skattaundanþágur vegna íslenskra ríkisskuldabréfa og íslenskra hlutabréfa stangist á við samninginn um hið evrópska efnahagssvæði. Með undanþágureglunum eru íslensk stjórnvöld að áliti stofnunarinnar að mismuna, þar sem þessar undanþágur eiga aðeins við um íslensk bréf. Fjármálaráðherra telur þetta óþarfa smámunasemi hjá ESA og hyggur ekki á skjótar breytingar.
Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur áður bent á eru undanþágur eins og þær sem hér um ræðir óheppilegar, því þær skekkja skilaboð þau sem fólk fær og viðskipti skila því ekki eins hagkvæmri niðurstöðu og án undanþáganna. Fólk kaupir meira en hagkvæmt væri af þeim vörum (í þessu tilviki íslenskum hlutabréfum og ríkisskuldabréfum) sem njóta undanþágunnar, en minna en hagkvæmt væri af öðrum. Af þessum ástæðum hefði verið æskilegt ef fjármálaráðherra hefði gripið tækifærið þegar þessi athugasemd kom til að leiðrétta þessar skekkjur. En vel má vera að honum snúist hugur, því ef þetta eru smámunir, eins og fjármálaráðherra telur, ætti fátt að koma í veg fyrir leiðréttingu.