Tvær fréttir í síðustu viku ættu að hafa hreyft við vinstri mönnum. Annars vegar var um að ræða frétt af ástralska kvennalandsliðinu í knattspyrnu sem gaf út dagatal með nektarmyndum af liðsmönnum. Þetta hlýtur að hneyksla bæði gamla íhaldsmenn og reiðar vinstrikonur ef marka má málflutning þeirra gegn nekt á Íslandi undanfarið. Verður gaman að fylgjast með greinum frá þeim á næstunni þar sem andstyggð er lýst á tiltækinu og kallað á umræðu um það hvort landsliðskonurnar hafi ekki verið neyddar til þess arna og svo út í vændi, uppdópaðar og auðvitað með lyfjaþolna berkla.
Hin fréttin ætti að halda vöku fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, Ögmundi Jónassyni og þeim sem festa ekki svefn vegna „ójafnrar tekjuskiptingar“ í þjóðfélaginu. Jóhanna og hennar lið hefur lýst mikilli skömm á þeim sem „raka að sér fjármunum“ og „stóreignamenn“ og „fjármagnseigendur“ fá það jafnan óþvegið. Í síðustu viku vann einstaklingur 40 milljónir og tveir aðrir 10 milljónir króna í happdrætti. Þetta eru að sjálfsögðu mun meiri tekjur en flestir hafa í ár og skattfrjálsar að auki. Eignir þessara einstaklinga eru ef til vill orðnar meiri en margur nær að sanka að sér á heilli ævi. Hlýtur að koma til kasta öfundarkórsins undir stjórn Jóhönnu vegna þessarar augljósu „misskiptingar auðs“.
Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður á Selfossi ritaði grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var um hve harða hríð ríkið gerir nú að eignarlöndum bænda í krafti laga um þjóðlendur. Ólafur segir í greininni að það komi landeigendum í Árnessýslu á óvart að ríkið skuli gera kröfu til þess að svokölluð hálendislína liggi víða niður í eignarlönd bænda og allt niður að bæjarhúsum. Vef-Þjóðviljinn getur tekið undir með Ólafi að það er óþarfi af ríkinu að ganga hart fram gegn landeigendum í þessu máli. Það skiptir meginmáli að einhver eigandi sé til staðar og gæti þar með eigna sinna. Þá er ekki átt við ríkið. Það hefur komið í ljós við mat á arðsemi virkjana að á meðan ríkið á landsvæði er landið einskis metið. Hver einasti landeigandi annar en ríkið myndi að sjálfsögðu kanna hvort aðrir en virkjunarmenn (til dæmis frístundafígúrur) væru tilbúnir til að greiða hærra verð.