Helgarsprokið 5. desember 1999

339. tbl. 3. árg.

Nýlega kom út bókin Aldarför og geymir hún greinar og ræður sem Pétur Gunnarsson rithöfundur hefur birt hér og hvar undanfarinn áratug. Meðal annars má þar finna erindi sem hann flutti í Ríkisútvarpið á síðasta ári en í lok þess ítrekaði hann eina þá röksemd sem gjarnan er haldið fram til stuðnings opinberum útvarpsrekstri: „[Okkur er] lífsspursmál að eiga útvarp sem heldur vöku sinni, sem upplýsir okkur um gang mála í þessu litla en lokaða samfélagi okkar og hefur úthald og siðferðisþrek til að fylgja málum eftir og afhjúpa þegar brögð eru höfð í frammi. Aðrir fjölmiðlar greina frá því sem þeir kæra sig um, þegar þeir kæra sig um, ef þeir kæra sig um. Aftur á móti þessi fjölmiðill hér, við hljótum ævinlega að gera þá kröfu að hann standi vaktina svo að hin „skrínlagða heimska“ nái aldrei að ríkja yfir Íslandi.“

Á dögunum felldi Hæstiréttur Íslands dóm sem síðan hefur mikið verið ræddur manna á meðal. Einn starfsmaður Ríkisútvarpsins, Illugi Jökulsson að nafni, tók sér fyrir hendur að fjalla um þann dóm í Ríkisútvarpinu að sínum hætti, ekki bara einu sinni heldur tvívegis. Hafði Illugi þar miklar skoðanir á efnisatriðum dómsmálsins og fór ekki á milli mála að hann var viss um að tiltekinn maður – sem Hæstiréttur hafði engu að síður leyft sér að sýkna – væri sekur um hrottafengna glæpi. Síðara þættinum lauk hann svo á því nefna nafn hans svo alþjóð yrði nú ljóst hver hinn seki maður væri. Þennan þátt ákvað Ríkisútvarpið að auglýsa linnulítið flutningsdaginn svo sem allra fæstir misstu nú af „umfjölluninni“.

Lögmaður hins sýknaða manns hélt því fram að í þessum þáttum hefði verið gefin villandi mynd af málinu og málavöxtum og óskaði eftir því við Ríkisútvarpið að fá svipaðan tíma og Illugi þessi til að greina frá hlið skjólstæðings síns. Ríkisútvarpið kærði sig ekki um það en útvarpsstöðin Bylgjan bauð lögmanninum þá að flytja erindi hjá sér.

Þetta eina dæmi, um eina útvarpsstöð sem birtir bara það sem hún kærir sig um, þegar þeir hún kærir sig um, ef hún kærir sig um, þ.e. Ríkisútvarpið, og aðra sem birtir efni sem ljóst er fyrirfram að njóta mun lítillar samúðar áheyrenda, þ.e. Bylgjuna, sannar vitaskuld ekkert eitt og sér. Til dæmis kann einhver að halda því fram að einkastöðin hafi þarna eingöngu séð sér áróðursleik á borði. En þó svo væri segir þetta sögu um Ríkisútvarpið og má hún verða þeim mönnum umhugsunarefni sem halda að það sé lýðræðislegri fjölmiðill en aðrir.

Menn gleyma því nefnilega oft, að þó Ríkisútvarpið sé ekki í einkaeign, er það ekkert sjálfstæðara fyrir það. Ríkisútvarpið er ekki sjálfstæð lífvera heldur lýtur það stjórn starfsmanna sinna sem virðast gjarnan líta á það sem sína eign. Að minnsta kosti telja þeir og viðhlæjendur þeirra að starfsmenn eigi öllu að ráða um stofnunina; dagskrá, fjárreiðum og meira að segja mannahaldi og megi fulltrúar eiganda hennar þar hvergi koma nærri. Skiptir engu þó fulltrúar eiganda sæki umboð sitt til almennings en starfsmennirnir sæki umboð sitt hver til annars.