Nú stendur yfir í samgönguráðuneytinu undirbúningur að einkavæðingu Landssímans og má gera ráð fyrir að hafist verði handa við hana á yfirstandandi kjörtímabili. Ekki er eftir neinu að bíða með þá sölu, enda hafa símafyrirtæki út um allan heim verið einkavædd með góðum árangri á síðustu árum. Annað fyrirtæki sem áður var rekið með Landssímanum en hefur verið skilið frá honum, Íslandspóstur, ætti einnig að fara á sölulista hið fyrsta þó lítið hafi verið rætt um þann möguleika.
Í tímaritinu Forbes er fjallað um póstþjónustuna í Hollandi, en „Hollandspóstur“ er að sögn tímaritsins hinn fyrsti í heimi sem hefur verið komið í hendur einkaaðila, þó ríkið eigi að vísu enn 44% í fyrirtækinu. Eftir rúmlega þrjú ár verður opnað fyrir samkeppni í póstþjónustu innan Evrópusambandsins og þá er mikilvægt að búið sé að breyta gömlu póststofnunum ríkisins í venjuleg fyrirtæki. Það sést vel á þeirri breytingu sem gerð hefur verið í Hollandi að einkavæðing skilar árangri á þessu sviði sem öðrum.
Einn mælikvarði á hagkvæmni póstfyrirtækis er hversu marga pakka eða bréf fyrirtækið afgreiðir á hvern starfsmann yfir árið. Í Hollandi er þessi tala 116.000 stykki og er það besti árangur í Evrópu. Í Þýskalandi er sambærileg tala um 80.000 og á Spáni 67.000.
Samkvæmt ársskýrslu Íslandspósts fyrir síðasta ár er þessi tala fyrir Ísland rúmlega 70.000. Erum við því miklir eftirbátar Hollendinga í þessum efnum og má vafalítið gera betur hér á landi þó erfitt kunni að verða að ná sömu skilvirkni og í þéttbyggðum löndum milljónaþjóða. Nokkur árangur hefur þegar náðst hér á landi í rekstri Íslandspósts frá því sem var þegar Póst- og símamálastofnunin var og hét. Þetta má m.a. sjá á því að tapi síðustu ára var í fyrra snúið upp í hagnað, þó hann væri að vísu ekki nema 2% af eigin fé sem er langt undir eðlilegum arðsemiskröfum. Einkavæðing Íslandspósts er leiðin sem fara þarf til að bæta reksturinn enn frekar og ná þeirri hagkvæmni sem eðlileg er.