Fimmtudagur 2. desember 1999

336. tbl. 3. árg.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hafði á því orð á dögunum að kaup Íslendinga á flugeldum héldu við barnaþrælkun í þeim ríkjum þriðja heimsins þar sem flugeldarnir eru framleiddir. Hann benti ennfremur á að árlega spryngju þessar flugeldaverksmiðjur í loft upp og mörg barnanna ýmist týndu lífi eða hlytu örkuml af. Nú er ekki að efa að Halldór byggi þessi orð sín á staðreyndum en í hugum einhverra leikur eflaust á því vafi hvernig skuli bregðast við þessum tíðindum. Fyrir velflesta eru aðeins tvær leiðir færar, annarsvegar að hætta að kaupa flugelda og hinsvegar að kaupa þá og halda áramót með púðri og prakt.

Eflaust líta einhver svo á að flugeldakaup séu myndbirting arðráns vesturveldanna í þriðja heiminum. Með flugeldakaupum sé lífi barna í þriðja heiminum fórnað svo bjarga megi rjúpnaskyttu með bilað GPS á Íslandi. Að ill meðferð á börnum sé þannig tilkomin vegna eftirspurnar eftir afurðum þrælkunarbúðana og því séu flugeldakaup með öllu óverjandi. Hinsvegar má spyrja hverjar afleiðingarnar verða fyrir börn í þrælkun ef markaðurinn fyrir afurðirnar hrynur. Er það til dæmis alveg víst að ef flugeldaverksmiðjan fer á hausinn, þá flytji börnin heim til góðra foreldra, setjist á skólabekk og fái andlega og líkamlega næringu svo þau þroskist og dafni? Hvað ef þessi börn eiga ekki foreldra eða foreldrar þeirra halda þeim að þrælkuninni? Hvað ef mat er ekki að fá, annars staðar en í þrælkuninni? Hvað ef þrælkunin er skásti kosturinn sem barnið á völ á ? Þessar spurningar kunna að hljóma kaldranalega en veruleiki þessara barna er kaldranalegri en nokkur flugeldakaupandi á íslandi, núverandi eða fyrrverandi, hefur kynnst.

Það er rétt hjá Halldóri Ásgrímssyni að vekja athygli á lífsskilyrðum þessara barna en það eru röng viðbrögð að hætta við fyrirhuguð flugeldakaup til þess eins að telja sjálfum sér og öðrum trú um að maður hafi gert góðverk. Slík góðverk hitta verst fyrir þau börn sem búa við svo ömurlegar aðstæður að þrælkun er skásti eða eini kosturinn.