Ísland er í hópi ríkja sem leggur á það áherslu í nýrri lotu um frelsi í heimsviðskiptum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) að ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði aflagðir ásamt höftum og hindrunum í viðskiptum með fisk. Helstu rökin eru þau að að ríkisstyrkirnir stuðli að ofveiði og spilli fyrir eðlilegum viðskiptaháttum með fisk. Helsti andstæðingur þessara sjónarmiða er Evrópusambandið. Evrópusambandið er líka helsti andstæðingur þess að ríkisstyrkir til landbúnaðar og verndartollar á landbúnaðarafurðir verði felldir niður. Íslendingar eru í liði með ESB í því máli og síðasta vetur fóru fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins mikla frægðarför til Noregs þar sem þeir lögðu á ráðin ásamt fulltrúum fleiri ríkja um það hvernig koma mætti í veg fyrir að viðskipti með landbúnaðarafurðir verði gefin frjáls. Í makalausri tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu var sagt að þessar þjóðir væru á móti viðskiptafrelsi þar sem þær vildu „viðhalda byggðum í sveitum“ og tryggja „fæðuöryggi“!
Í Morgunblaðinu í gær er birt grein eftir Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um mikilvægi þess að þróunarlöndin fái að njóta góðs af frjálsum viðskiptum. Hann segir að viðskipti við þróunarlöndin séu betri en aðstoð. Hann bendir á að Vesturlönd noti tolla, kvóta, niðurgreiðslur og lög um undirboð til að koma í veg fyrir samkeppni bænda og annarra framleiðenda í þróunarlöndunum. Hann fullyrðir að iðnríkin niðurgreiði matvælaframleiðslu um 18.000 milljarða króna árlega. Þessar aðgerðir, sem íslenska ríkið tekur þátt í, koma í veg fyrir að bændur í þróunarlöndunum geti flutt út afurðir sínar og bætt lífsafkomu sína. Það er sorglegt til þess að vita að Íslendingar taki þátt í þessu og starfsmenn íslenska ríkisins standi í ráðabruggi um það hvernig halda megi fátækum bændum í þróunarlöndunum í fátækt. Sérstaklega þar sem við erum á sama tíma málsvarar viðskiptafrelsis og afnáms ríkisstyrkja á öðru sviði.
Kofi Annan nefnir einnig að frjáls viðskipti séu jákvæð fyrir umhverfið, en um þetta hefur víða verið fjallað, m.a. hér í Vefþjóðviljanum. Vegna þessa hljóta að vakna spurningar um hvaða ástæður liggja að baki mótmæla hinna svokölluðu umhverfisverndarsinna sem nú eru á fundarstað WTO í Seattle. Þar eru tugir þúsunda saman komnir til að mótmæla og eru mótmælin skipulögð fyrir fjölmiðla eins og aðrar leiksýningar sem þessir aðilar hafa sett upp síðustu árin. Stóru umhverfisverndarsamtökin, sem iðulega leggjast gegn starfsemi alþjóðafyrirtækja, eru sjálf fyrir löngu orðin alþjóðleg gróðafyrirtæki og virðast fjármunir ráða mestu um hvar er mótmælt hverju sinni, en ekki endilega umhyggja fyrir umhverfinu.