Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að til standi að selja 15% hlutafjár í Búnaðarbanka og Landsbanka fyrir árslok. Þar með verður hlutur ríkisins í þessum bönkum kominn niður í um 72% og er það jákvæð þróun að ríkið sé að draga sig út úr rekstri viðskiptabanka.
Í nýjasta tölublaði The Economist er birt súlurit sem sýnir hversu mikil einkavæðing hefur farið fram í ýmsum löndum. Samanlagt heildarvirði einkavæðingar á árunum 1990-1998 er borið saman við verga landsframleiðslu ársins 1998 og reiknað hlutfallið þar á milli. Því hærra sem hlutfallið er, þeim mun meira hefur verið einkavætt á þessum árum. Þau lönd sem mest hafa einkavætt eru Ungverjaland sem hefur vinninginn með tæplega 25%, Portúgal með tæp 20%, Nýja-Sjáland með um 15% og loks Ástralía með um 13%. Lönd á borð við Spán, Ítalíu, Grikkland, Bretland og Finnland eru með mun lægra einkavæðingarhlutfall, eða um 5% og önnur lönd eru enn lægri.
Sambærilegar tölur voru ekki birtar fyrir Ísland, en gera má ráð fyrir að ef miðað er við sama tímabil gert er í The Economist liggi hlutfallið fyrir Ísland á bilinu 1-2%. Ef árið 1999 er tekið með fyrir Ísland, en það stefnir í að verða mikið einkavæðingarár, nálgast hlutfallið hér á landi 4%. Þá er samanburðurinn okkur í vil og þó náum við alls ekki að verða meðal fremstu þjóða í þessum efnum. Það er því full ástæða til að ganga rösklega til þess verks sem eftir verður og selja afganginn af ríkisbönkunum á næsta ári. Þeir sem eru hvað áhugasamastir um alls kyns tímamót munu telja það sérstakt ánægjuefni ef þannig tekst að koma ríkinu út úr rekstri banka fyrir komandi árþúsundamót.
Í greinargerð Samkeppnisstofnunar til ógildingar á kaupum Myllunnar-Brauðs 7. apríl 1998 kom eftirfarandi fram: „…ekki [er] líklegt að í fyrirsjánlegri framtíð komi nýir aðilar inn á markaðinn sem færir verði um að veita MB virka samkeppni.“ Í byrjun nóvember tók hins vegar til starfa nýtt bakarí sem mun einbeita sér að sölu brauða til stórmarkaða, þ.e. róa á sömu mið og MB. Nýbrauð sem nýja bakaríið heitir hefur þegar gert samning við verslunarkeðjuna sem rekur Nóatúnsbúðirnar og 11-11.
Það er í raun afar einkennilegt að starfsmenn opinberra stofnana geti gripið inn í viðskipti fyrirtækja úti í bæ á þeirri forsendu að þeir spái nú svona og svona um framtíðina á þessum markaði. Í hvaða aðstöðu eru þeir til að spá fyrir um slíkt? Ekki betri en aðrir og líklega verri.
Andstætt Samkeppnisstofnun er Vef-Þjóðviljinn rekinn fyrir frjáls framlög og án ríkisstyrkja. Smelltu hér til að taka þátt í bakstrinum.