Miðvikudagur 17. nóvember 1999

321. tbl. 3. árg.

Gunnar Karlsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands hefur lýst áhyggjum sínum yfir því að kennsluefni í mannkynssögu fyrir framhaldsskóla sem Nýja bókafélagið undirbýr útgáfu á, muni verða með hægri slagsíðu. Rökin fyrir þessu eru annars vegar þau að forráðamaður forlagsins sagði í viðtali að þetta ætti að verða borgaralegt forlag og hins vegar að tveir af þeim sagnfræðingum sem vinna eiga að gerð bókarinnar eru til hægri við miðju í stjórnmálum. Þó virðist ritstjórn bókarinnar spanna hið pólitíska litróf og því tæplega ástæða til að hafa áhyggjur af því að hún verði hlutdræg.

Vinstri menn, en Gunnar Karlsson hefur lengi verið virkur í starfi Alþýðubandalagsins, halda því gjarnan fram að allt sem ekki er skrifað út frá sjónarhóli sósíalista sé ótækur pólitískur áróður. Það sem vinstri menn semji sé hins vegar bæði faglegt og hlutlaust. Þannig hefur Gunnar sjálfur ritað nokkrar kennslubækur í sögu. Má nefna Kóngsins menn, Samband við miðaldir og Uppruna nútímans. Ekki virðist Gunnar hafa haft áhyggjur af því að pólitískar skoðanir hans mundu spilla fyrir kennslunni. Mál og menning gaf út þessar bækur Gunnars.

Vinstri sinnaðir sagnfræðingar hafa ekki heldur séð ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum eða öðrum sögubókum sem bókaforlagið Mál og menning hefur verið að gefa út í gegnum tíðina. Þó gekk það forlag svo langt í pólitískri baráttu sinni að það fékk fjárstyrki frá Sovétríkjunum til að geta staðið undir bókaútgáfu sinni. Og þegar gluggað er í eina af sögubókum Máls og menningar sem kennd var í framhaldsskólum landsins fyrir nokkrum árum, Mannkynssaga eftir 1850, verður lesendum vel ljóst að höfundar bókarinnar hafa litla samúð með markaðshagkerfinu á Vesturlöndum en eru þeim mun meiri áhugamenn um félagshyggju.

Í nýbirtum dómsorðum gegn Microsoft segir dómarinn, Thomas Penfield Jackson, að viðskiptahættir fyrirtækisins „hafi skaðað neytendur með beinum og augljósum hætti.“ En hverjir eru þessir neytendur sem hafa orðið fyrir beinum og augljósum skaða af völdum Microsoft. Samkvæmt Jackson eru það Þeir kaupendur Windows (stýrikerfisins) sem ekki vildu vafrann (Internet Explorer) í kaupbæti, „…fyrirtæki, foreldrar og kennarar til dæmis, sem höfðu áhyggjur af ábyrgðarlausu (net)vafri í PC kerfum…“. Lesendur þessa pistils gera sér væntanlega grein fyrir því að til að vafra á Internetinu, hvort sem er af fullri ábyrgð eða ábyrgðarlaust, þarf símalínu, símanúmer og samning við internetþjónustu og þannig getur Microsoft tæpast talist ábyrgt fyrir ábyrgðarlausu netvafri. Ekki frekar en símafyrirtæki, framleiðandi símasnúra eða internetþjónustan. Þessi afstaða skýtur einnig skökku við í ljósi þess að dómarinn eyðir miklu púðri í að sýna fram á hvernig Navigator Netscape fyrirtækisins og Java – mál Sun fyrirtækisins hafi verið að því komin að skapa nýjan og stórkostlega netvæddan tölvuheim þegar Microsoft ruddi þeim úr vegi. Hefði sá heimur verið áhyggjulaus fyrir fyrirtæki, foreldra og kennara sem dómaranum virðist svo annt um?