Um helgina var kosinn nýr forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands en Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður „Frjálslynda flokksins“ lét af því starfi. Efalaust hafa ýmsir velunnarar sjómanna fagnað því, því ekki hafa allir haft álit á honum sem forystumanni. Að minnsta kosti fékk Guðjón ekki háa einkunn í grein sem merkur maður ritaði í Morgunblaðið nú í vor, örfáum dögum áður en Guðjón var valinn til setu á lista „Frjálslynda flokksins“ á Vestfjörðum.
Á því augnabliki sótti Guðjón fast að fá þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi og kjörnefnd lagði til að svo yrði. Greinarhöfundur greindi frá því að kjörnefndin hefði í þessu skyni ýtt úr þessu þriðja sæti þeim manni sem þar hafði setið, Ólafi Hannibalssyni, en „tyllt í það einum af hinum svokölluðu forystumönnum sjómanna, en flestir hafa þeir garpar reynst ótrúlega þægir leppar í skóm sægreifanna.“
Guðjón var semsagt fyrir rúmu hálfu ári „svokallaður forystumaður sjómanna“ og greinilega einn hinna „ótrúlega þægu leppa í skóm sægreifanna“. Og hver var greinarhöfundur? Nú auðvitað Sverrir Hermannsson, formaður „Frjálslynda flokksins“.
Steingrímur Hermannsson hefur að undanförnu lýst í fjölmiðlum fundi sínum og Ronalds Reagans forseta Bandaríkjanna árið 1986 en Steingrímur var forsætisráðherra þegar Reagan kom hingað á fund leiðtoga stórveldanna. Dregur Steingrímur upp heldur dapra mynd af Reagan sem hann segir að hafi ekki svarað spurningum sínum um horfur heimsmála en dregið upp miða og lesið af honum án tilefnis að Flugleiðir gætu fengið lendingarleyfi í Boston! Fer vart á milli mála af þessari furðulegu lýsingu að Steingrími er heldur í nöp við Reagan.
Í bókinni Fjölmiðlar nútímans segir hins vegar frá því að Steingrímur, sem þá var utanríkisráðherra, hafi gert athugasemdir við það í ágúst 1988 að Þorsteinn Pálsson þáverandi forsætisráðherra fór í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna á meðan efnahagserfiðleikar steðjuðu að landsmönnum. Steingrími hafi sárnað mjög að Þorsteini var boðið í slíka heimsókn þar sem hann hafi sjálfur reynt að sníkja boð til forseta Bandaríkjanna í forsætisráðherratíð sinni árin 1983 til 1987 en þá var Reagan einmitt forseti. Þær sníkjur Steingríms voru árangurslausar.
Steingrímur varð forsætisráðherra á ný haustið 1988 og skömmu síðar fór hann í langa opinbera heimsókn til Bretlands þótt efnahagsástandið hefði versnað frá því Þorsteinn Pálsson sótti Reagan heim.