Winston Churchill fjárfesti verulega í bandarískum hlutabréfum fyrir hrunið á hlutabréfamarkaði árið 1929. Hann var meðal margra sem töpuðu miklu fé. Margar fjölskyldur urðu gjaldþrota og margir fjölskyldufeður sviptu sig lífi. Það þarf raunar enga kreppu til þess að menn tapi aleigunni í viðskiptum. Það gerist á hverjum degi. Viðskipti eru misáhættumikil. Þau sem eru einna áhættumest eru nefnd happdrætti eða fjárhættuspil enda leggja menn yfirleitt litlar upphæðir að veði. Stundum er talað um að þessi tegund af viðskiptum sé skattur á þá sem kunna ekki að reikna þar sem afar fáir hagnist á þeim. Þeir sem stunda þessi viðskipti, þ.e. taka þátt í happdrætti eða fjárhættuspili, eru þó einnig að kaupa spennu. Hér á landi hefur lítið farið fyrir þessum viðskiptum enda þeim þröngar skorður settar lagalega. Þó hafa nokkur líknar- og góðgjörðarfélög heimild til þess að lokka til sín spennufíkla með spilakössum. Vafalaust leggja menn einnig fé undir í lokuðum hópi.
Nú hafa nokkrir þingmenn með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar lagt fram frumvarp sem afnemur heimild þessara félaga til að reka spilakassa. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: „Hins vegar telja flutningsmenn þær hörmungar sem ljóst er að söfnunarkassarnir hafi í för með sér séu svo afdrifaríkar fyrir íslenskt samfélag að ekkert réttlæti tilvist kassanna.“ Það sem þingmennirnir telja svo afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag er sú „staðreynd að fjöldi fólks hefur ánetjast spilafíkn vegna þeirra og er nú svo komið að miklum fjármunum er varið til að veita meðferð vegna þeirrar ógæfu sem þessi starfsemi hefur kallað yfir fólk.“
Það væri snautlegt um að litast ef allt sem kallar ógæfu yfir fólk væri bannað. Það er fátt sem ekki hefur einhvern tímann kallað ógæfu yfir einhvern. Próf í skólum hafa hrakið margan manninn niðurbrotinn frá námi. Giftingar hafa endað með andstyggilegum skilnuðum. Hlutabréfakaup hafa gert menn gjaldþrota. Engum dettur þó í hug að banna próf, giftingar eða hlutabréfakaup. Fjárhættuspil eru sama marki brennd. Margir hafa gaman af þeim en aðrir kunna sér ekki hóf.