Laugardagur 13. nóvember 1999

317. tbl. 3. árg.

Samkeppnislöggjöf byggir á þeirri kenningu að hætta sé á að fyrirtæki nái yfirburðastöðu á tilteknum markaði og takist að hrekja önnur fyrirtæki út af honum. Í framhaldi af því að hafa náð þessari yfirburðastöðu eiga fyrirtæki svo samkvæmt kenningunni að níðast á neytendum með of háu verði. Í grein í WorldNetDaily segir Alan W. Bock að þegar frjáls samkeppni ríkir geti þessi staða ekki komið upp og að hún hafi aldrei komið upp nema þar sem fyrirtæki hafi notið aðstoðar ríkisins.

Bock bendir á að á síðustu öld hafi Standard Oil fyrirtækið, sem var afar umsvifamikið á olíumarkaði, verið farið að missa markaðshlutdeild sína áður en samkeppnislögin voru sett. Hann nefnir einnig að um tíma á þessari öld hafi álfyrirtækið Alcoa borið höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki á álmarkaði með því að bjóða lágt verð. Þegar það hafi hækkað verð (eins og kenningin um markaðsráðandi stöðu gerir ráð fyrir) hafi það hins vegar misst markaðshlutdeild. Hann tekur einnig dæmi af IBM sem hafi haft sterka stöðu á meðan það hafi boðið góða vöru og þjónustu, en þegar það hafi slakað á og farið að haga sér eins og það væri markaðsráðandi, hafi það misst forskotið í hendur keppinauta. Átök við yfirvöld vegna samkeppnislaganna hafi haft lítið að segja í þessu sambandi.

Bock vísar einnig til nýrrar rannsóknar á hátækniiðnaðinum sem varpar nokkru ljósi á möguleg áhrif samkeppnislaga á þann iðnað. Þar kemur fram að á árunum 1988 til 1995 hafi Microsoft, sem sumir álíta hættulegt og markaðsráðandi fyrirtæki, framleitt forrit í 10 af þeim 15 geirum sem forritamarkaðnum var skipt niður í. Í þeim 5 geirum sem Microsoft keppti ekki, lækkaði verð forrita um að meðaltali 15%. Í þeim 10 geirum forrita þar sem Microsoft keppti, lækkaði verð forrita hins vegar um 65%. Auk þess kom í ljós að Microsoft náði aðeins yfirburðastöðu í þeim forritageirum þar sem það bauð upp á forrit sem voru álitin betri en forrit keppinautanna.

Út frá þessum tölum er ekki hægt að halda því fram að Microsoft hafi náð einhverju sem jafngildir einokunarstöðu. Þvert á móti virðist Microsoft hafa lagt nokkuð af mörkum til að auka samkeppni og bæta kosti neytenda. Bock dregur þá ályktun af málaferli dómsmálaráðuneytisins gegn Microsoft að kominn sé tími til að afnema samkeppnislögin, þau séu óþörf, hafi verið misnotuð og byggi þar að auki á hagfræðikenningu sem standist ekki.