Miðvikudagur 3. nóvember 1999

307. tbl. 3. árg.

Það kom mörgum á óvart fyrir þingkosningar 1987 að Steingrímur Hermannsson flutti sig úr sína gamla kjördæmi á Vestfjörðum til Reykjaness. Hann hafði ítrekað lýst því yfir að hann gæti hvergi annars staðar hugsað sér að vera í framboði en á Vestfjörðum. Þegar hann var spurður hverju þetta sætti sagði hann: „Ég meinti það þegar ég sagði það.“

Steingrímur er nú sem kunnugt er mjög andvígur virkjunum norðan Vatnajökuls. Páll Pétursson félagsmálaráðherra og samstarfsmaður Steingríms í Framsóknarflokknum til margra ára er inntur eftir þessari skoðun Steingríms í Degi í gær og segir: „En það er helvíti að [Steingrímur] skuli ekki hafa verið kominn á þessa skoðun sem hann hefur á Eyjabakkamálinu þegar hann stóð að því að sökkva heiðum undir Blöndulón, þar var sökkt 60 ferkílómetrum af algrónu landi en þeir hefðu komist af með þriðjungi minna lón hefði annað lónstæði verið valið. Þegar framkvæmdir við Blöndu voru ákveðnar var Steingrímur áhrifamikill í ríkisstjórn og að ákvörðun stóðu Hjörleifur og hann.“

Ögmundur Jónasson spurði að því á Alþingi í fyrradag hvort Björn Bjarnason menntamálaráðherra ætlaði að gera hafnfirsk börn að „tilraunadýrum“. Tilefni spurningarinnar er hugmynd um að bjóða rekstur grunnskólans í Hafnarfirði út en bæjaryfirvöld hafa óskað eftir heimild til þess. Sjálfsagt er að veita þessa heimild. Einkareknir skólar hafa til dæmis séð um stóran hluta þeirrar tölvukennslu sem landsmönnum hefur staðið til boða undafarin ár. Enginn hefur lýst nemendum þeirra skóla sem tilraundýrum. Með útboði eru kostir einkarekstrar nýttir án þess að skerða þjónustu við nemendur. Það er raunar stórfurðulegt hvað íslenskir kennarar hafa verið lítt spenntir fyrir því að taka að sér rekstur skóla. Þeir hafa ekki beinlínis lýst því yfir á undaförnum árum og áratugum að þeir séu ánægðir með kjör sín. Hvers vegna hafa þeir ekki reynt nýjar leiðir í ríkari mæli? Það kann þó að vera að pólítískir vindar hafi ekki blasið byrlega fyrir nýjungum og einkarekstri. Nú ætti það að hafa breyst.
Ein ástæða þess að Ögmundur er svo hvatvís og orðljótur í þessu máli er vafalaust sú að hann er formaður BSRB en við hvert útboð og hverja einkavæðingu fækkar þeim sem skyldugir eru til aðildar að stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Félagsgjöld þeirra sem neyddir eru til aðildar að BSRB hafa meðal annars verið notuð í útgáfu áróðursrita gegn einkarekstri og pólítískar sjónvarpsauglýsingar um ýmis mál. Til dæmis gegn því að banni við áfengisauglýsingum verði aflétt.