Þriðjudagur 2. nóvember 1999

306. tbl. 3. árg.

Eftir að afgreiðslutími veitingastaða var gefinn frjáls í miðborg Reykjavíkur hefur það gengið eftir sem stuðningsmenn aukins frelsis á þessu sviði höfðu haldið fram. Andrúmsloft á nóttunni í miðborginni er miklu afslappaðra en áður var og ekki er sama mannmergð þar og áður var. Veitingastaðirnir nýta sér sumir hið nýfengna frelsi með því að hafa opið fram á morgun en aðrir hafa opið skemur. Má segja að ástandið sé að færast í eðlilegra horf.

Á öðru sviði er ástandið alls ekki eðlilegt, en það snertir fyrirkomulag áfengissölu, sem er með afar sérstökum hætti hér á landi eins og ein verslunarkeðja hefur bent á. Þeir sem komið hafa út fyrir landsteinana þekkja að sala á áfengi, bæði léttu og sterku, fer iðulega fram í matvöruverslunum og á bensínstöðvum án þess að meira beri á drykkju þar en hér. Raunar er það eins með þetta og afgreiðslutíma veitingastaða, að með auknu frelsi á þessu sviði mundi fólk líklega fara betur með áfengi en hingað til hefur verið. Aðalatriðið er hins vegar að fullorðið fólk á að fá að ráða því sjálft hvar það kaupir áfengi og hvenær það skemmtir sér.

Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar telur að hækkun á gengi ríkisviðskiptabankanna eftir útboð á bréfum í þeim sýni að þeir hafi verið seldir of lágu verði. Og þó þúsundir manna hafi keypt þessi bréf talar Jóhanna enn um „einkavinavæðingu“. Það sem Jóhönnu yfirsést er að með sölu bréfa í ríkisbönkum er að verða mikil breyting á fjármálamarkaðnum, bæði í einstökum fjármálafyrirtækjum og á umhverfi fyrirtækjanna. Fyrirtækin eru því meira virði eftir að einkavæðing er hafin heldur en áður. Þetta stafar meðal annars af því að nú dregur úr áhrifum Jóhönnu og annarra alþingismanna í bankakerfinu. Í stað þess að vera illa reknir ríkisbankar sem lána stundum á pólitískum forsendum eru góðar líkur til þess að bankarnir geti orðið arðbær fyrirtæki. Þess sjást raunar þegar merki.

Þar fyrir utan er misskilningur hjá Jóhönnu að halda að hægt sé að segja eftir á að fyrirtæki hafi áður verið rangt metið af þeirri ástæðu einni að verð þess hefur hækkað. Fjölmargt getur skýrt hækkunina, t.d. sú áhætta sem fjárfestar tóku með kaupunum. Enginn gat vitað fyrir víst að bankarnir mundu hækka í verði og fjölmargir keyptu ekki bréf í þeim af þeirri ástæðu að þeir voru ekki vissir um að þetta væri góð fjárfesting. En það þarf svo sem ekkert að koma á óvart að Jóhanna hafi horn í síðu einkavæðingar og geri allt til að spilla fyrir henni, því það hefur hún alltaf gert. Og nú hlýtur henni að líða sérstaklega illa vegna einkavæðingarinnar, þegar loks er verið að losa ríkið endanlega út úr Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Það er líklega lítið skemmtilegt að vera fylgjandi ríkisrekstri á stundu sem þessari.