Föstudagur 15. október 1999

288. tbl. 3. árg.

Fyrir síðustu forsetakosningar þótti mörgum sem illa færi á því, að maður með feril og framkomu Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi þingmanns Alþýðubandalagsins og fyrrverandi fjármálaráðherra, yrði gerður að forseta Íslands. Hluti þessa fólks leyfði sér að rita greinar í blöð og halda fram þessari skoðun sinni. Skemmst er frá því að segja að stuðningsmenn Ólafs Ragnars tóku því afskaplega illa. Sjaldnast reyndu þeir þó að mótmæla því sem sagt var um frambjóðandann; frekar var reynt að halda því að fólki að óeðlilegt væri að ræða um feril frambjóðandans, engu skipti hvað hann hefði sagt og gert áratugina á undan. Ólafur Ragnar Grímsson væri bara „hæfastur“ og þeir sem segðu eitthvað annað væru bara harðsvíraðir samsærismenn sem hötuðu Ólaf og styddu jafnvel það pólitíska tígrisdýr, Pétur Kr. Hafstein.

Sérfræðingurinn
Sérfræðingurinn

„Efldur hefur verið harðsvíraður og þaulskipulagður flokkur til höfuðs Ólafi Ragnari Grímssyni“ skrifaði einn stuðningsmaður Ólafs daginn fyrir kosningar. „Deilubréfin gegn honum hafa mörg verið óvanalega rætin og heiftúðug á íslenskan mælikvarða“ bætti hann við. Stuðningsmaðurinn nefndi í grein sinni að fjallað hafi verið opinberlega um trúarskoðanir Ólafs Ragnars og sagði að sú umræða hefði „teygt sig langt útfyrir velsæmismörk“ enda væri „einkamál Ólafs og almættisins hvernig sambandi þeirra [væri] háttað“.

Þarna reyndi þessi stuðningsmaður Ólafs Ragnars að leiða lesendur frá kjarna umræðunnar, en þeir, sem fjallað höfðu um trúarskoðanir Ólafs, höfðu tekið skýrt fram að þær væru hans einkamál. Hins vegar væri ekki traustvekjandi að Ólafur Ragnar hafði áratugum saman lýst yfir þeirri sannfæringu sinni að Guð væri ekki til, en segði svo skömmu fyrir kosningar að hann tryði á þann guð sem sérstaklega amma hans hefði kennt honum að trúa á.

Stuðningsmaðurinn sem með þessum hætti túlkaði umræðuna fyrir kjósendur var Örnólfur Thorsson íslenskufræðingur. Örnólfur hefur nú verið ráðinn til starfa á skrifstofu forseta Íslands, sem „sérfræðingur“. 38 manns sóttu um starfið. Örnólfur var hæfastur.

Í grein sinni sagði Örnólfur einnig að þjóðin þekkti stjórnmálaferil Ólafs Ragnars mætavel og nefndi sem dæmi um þann farsæla feril, „að hann felldi niður virðisaukaskatt af bókum“. Reyndar minnti Vefþjóðviljann að alþingi hefði tekið þá ákvörðun en ekki Ólafur Ragnar einn, en látum það vera. Hins vegar hefði nú mátt taka ýmis önnur dæmi af ferli Ólafs Ragnars og hefði Örnólfur eflaust getað rifjað einhver upp, enda er hann fróður hæfileikamaður, fyrrverandi ritstjóri hjá bókaútgáfunni Svart á hvítu.