Mánudagur 4. október 1999

277. tbl. 3. árg.

Nú fer hver að verða síðastur að segja sig úr svonefndum gagnagrunni á heilbrigðissviði, hafi menn hug á því. Ekki það að nokkur maður hafi sagt sig í gagnagrunninn, hvorki lífs né liðinn. En það er eins og með svo margt annað, ríkið tekur ákvarðanir fyrir lifendur og dauða. Í gær bárust hins vegar af því fréttir að starfsmenn fyrirtækis hefðu fengið leyfi tölvunefndar til að skoða sjúkraskýrslur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur um 30 einstaklinga vegna fyrirhugaðs gagnagrunns. Svona til að starfsmenn fyrirtækisins gætu áttað sig á því hvernig skýrslurnar líta út og hvað væri hægt að vinsa úr þeim. Fréttirnar voru sagðar eins og það beri til sérstakra tíðinda að gluggað sé í sjúkraskýrslur hjá heilbrigðisstofnunum ríkisins. En hvað um það. Samkvæmt leyfi tölvunefndar ríkisins hafa starfsmennirnir fullt leyfi til að sjá skýrslurnar með nafni og kennitölu sjúklings en þau munu engu síður verða afmáð af starfsmönnum sjúkrahússins. Þar að auki gæti vel verið um skýrslur að ræða frá þeim sem hefðu sagt sig úr gagnagrunninum. Nú hlýtur heilbrigðisráðuneytið að bjóða landsmönnum upp á að segja sig úr þessu happdrætti sem fram á að fara á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Ekki það að nokkur hafi óskað eftir þátttöku í því en ráðuneytið býr að því að mönnum koma þessi vinnubrögð væntanlega ekki á óvart. Hitt vekur auðvitað athygli að fyrirtækið sem hér um ræðir hefur víst marga hæfa lækna innanborðs en enginn þeirra getur sagt vinnufélögum sínum frá því hvernig dæmigerð sjúkraskýrsla lítur út.

Um tölvunefnd ríkisins sem veitti þetta leyfi er fátt að segja enda gerir Vef-Þjóðviljinn sér ekki miklar vonir um hana frekar en annan ríkisrekstur. Helst má spyrja eins og Rómverjar forðum: Hver á að gæta varðanna?

Frjálslyndi flokkurinn var ef marka má talsmenn hans aðallega stofnaður til að breyta núverandi skipan fiskveiðistjórnunar. Ætlunin var að taka upp verri skipan, en fáir vita svo sem nákvæmlega hvernig hún átti að vera. Landsmenn virðast hins vegar hafa áttað sig á að ekki væri ástæða til að láta þá sem að flokknum standa hafa áhrif á mótun sjávarútvegsstefnunnar og því fékk hann nær ekkert fylgi. Persónufylgi eins manns á Vestfjörðum varð þó til þess að flokkurinn kom tveimur mönnum inn á þing.

Nú hefur það svo gerst að skipuð hefur verið nefnd sem á að kanna hvort hægt er að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að um það verði meiri sátt en það verði þó ekki óhagkvæmara en nú er. Þá gerist það að formaður flokksins kvartar yfir því að eiga ekki fulltrúa í nefndinni og álítur að þar með sé nefndin síður til þess fallin að ná markmiði sínu. Þetta er sérstakur málflutningur. Hvers vegna hefði átt að hleypa flokki inn í slíka nefnd, þegar hann hafði það stefnumál eitt að breyta fiskveiðistjórninni en var hafnað? Hefði það verið til þess fallið að auka sátt um kerfið? Og svo má spyrja hvort gengi Frjálslyndra í síðustu kosningum bendi til að mikil ósátt ríki um kerfið? Þingstyrkur flokksins er 2/63 þannig að þingmenn þeirra þyrftu að hafa meira vægi en þingmenn annarra ef ekki á að gera nefndina að 30 manna nefnd. Það væri ef til vill ekki óeðlilegt miðað við vægi Vestfirðinga almennt á þingi.