Helgarsprokið 3. október 1999

276. tbl. 3. árg.

Ludwig von Mises hefði átt afmæli í vikunni sem leið, hinn 29. september, en frægasta bók hans Human Action átti hins vegar stórafmæli hinn 14. september síðastliðinn þegar 50 ár voru liðin frá útgáfu hennar. Þótt Vef-Þjóðviljinn telji sig stundum fjalla allítarlega um mál í helgarsproki ætlar hann sér ekki þá dul að kryfja Human Action til mergjar. Bókin er ekki aðeins um hagfræði í víðasta skilningi þess orðs heldur einnig í dýpsta skilningi en hvert smáatriði er rifið niður í frumeindir sínar og byggt upp aftur.

mises3.gif (18428 bytes)
mises3.gif (18428 bytes)

Ludvig von Mises var fæddur árið 1881 í Lemberg sem þá tilheyrði Austurrísk-ungverska keisaradæminu. Nítján ára hóf hann nám við háskólann í Vín og lauk þaðan doktorsprófi árið 1908. Kennslan við Vínarháskóla var mótuð af Carl Menger upphafsmanninum að austurríska skólanum í hagfræði. Meðal kennara Mises var Eugen von Böhm-Bawerk sem var einnig fjármálaráðherra Austurríkis á þeim tíma. Böhm-Bawerk kenndi ekki aðeins austurríska hagfræði heldur hrinti hann henni í framkvæmd með því að stöðva hallarekstur ríkisins og setja gjaldmiðilinn á gullfót. Mises starfaði síðar sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og er talinn eiga stóran þátt í því að Austurríki varð ekki óðaverðbólgu að bráð, eins og Þýskaland, eftir fyrra stríð. Hann tók þátt í fyrra stríði sem hermaður á austurvígstöðvunum. Mises flutti til Genf í Sviss árið 1934 og gaf út bókina Nationalökonomie: Theorie des Handelns und Wirtschaftens árið 1940 en sem von var vakti hún litla athygli í stríðsbyrjun. Bókin var þó grunnurinn að Human Action: A Treatise on Economics sem kom út 14. september 1949.

Óhætt er að segja að Human Action hafi mætt miklu andstreymi um leið og hún kom út. John Kenneth Galbraith fordæmdi hana og New York Times og fleiri blöð og tímarit lýstu vanþóknun sinni. Bókin er enda afar kröftug atlaga að þeim hugmyndum sem höfðu farið eins og eldur í sinu um heiminn fyrri hluta aldarinnar, kommúnismanum og þjóðernisjafnaðarstefnunni (fasismanum) og öllum útþynntum útgáfum af þessum samhyggjustefnum. Á þessum árum var almennt talið að frjálshyggjan hefði gengið sér til húðar með kreppunni miklu. New Deal ríkisafskiptastefnan hefði leyst þá kreppu sem frjálsa markaðskerfið var komið í þótt síðar hafi komið í ljós að ríkisafskiptin lengdu kreppuna. Framfarastefna þessara ára fólst í framsókn ríkisins, auknum umsvifum þess á öllum sviðum. Sú áhersla sem Mises leggur á einstaklinginn og það lykilhlutverk sem hann á að skipa í hagkerfinu fór því eðlilega fyrir brjóstið á mörgum samhyggjumanninum. „Þjóðfélagið er ekkert annað en samspil einstaklinga og fær ekki staðist án ákvarðana þeirra“, segir Mises. Strax á fyrstu síðu Human Action hafnar hann því algjörlega að fjalla um manninn sem þjóð, trúarhóp eða kynþátt. Eina leiðin til að fá botn í tilveruna sé að líta á einstaklinginn. Bókin vakti því auðvitað áhuga frjálslyndra fræðimanna og kveikti áhuga þeirra á hefðubundinni frjálshyggju sem ásamt fleiru leiddi til uppreisnar hennar á síðari hluta aldarinnar. Þess má geta að ein bóka Mises hefur komið út í íslenskri þýðingu Jónmundar Guðmarssonar en það er Hugleiðingar um hagmál.

Ralph Raico, fyrrum nemandi Mises og prófessor við Syracuse University New York, lýsir þeim áhrifum sem verk Mises einkum Human Action og Socialism, sem Mises hafði gefið út árið 1922, höfðu á hugmyndabaráttuna í riti sínu Frjálshyggjan á 20. öldinni.

„Áhrif hugmyndanna: Ludwig von Mises

Ekkert er eins vanmetið og áhrif hugmyndanna. Þetta sagði meðal annarra John Maynard Keynes, einn áhrifamesti hugsuður andstæðinga frjálslyndis á fjórða áratugi aldarinnar.

Hugmyndir hagfræðinga og stjórnmálaheimspekinga, hvort sem þeir hafa rétt fyrir sér eða ekki, hafa meiri áhrif en flestir gera sér grein fyrir. Raunar er heiminum vart stjórnað af nokkru öðru…áhrif sérhagsmuna eru stórlega ofmetin í samanburði við seiglu hugmyndanna…fyrr en seinna hafa hugmyndir en ekki sérhagmunir úrslitaáhrif til góðs eða ills.

Það er ekki hlaupið að því að finna betra dæmi um þessa kenningu Keynes en verk Ludwigs von Mises, austurrísk-bandaríska hagfræðingsins og heimspekingsins, sem kemur fram á sjónarsviðið við endurreisn frjálslyndis á 20. öldinni. Mises var frá 1920 forvígismaður austurríska skólans í hagfræði sem byggir hagvísindi sín á athöfnum einstaklinga. Árið 1922 gaf Mises út bókina Socialism sem er einstök ádeila á allar þær tegundir sósíalismans sem voru í tísku á þeim tíma. Mörgum árum síðar lýsti F. A. Hayek vinur hans og lærisveinn þeim áhrifum sem bókin hafði á skarpa unga hugsuði á þessum tíma.

Áhrifin af útkomu Socialism ristu djúpt. Smám saman gjörbreytti bókin viðhorfum margra ungra hugsjónamanna sem snéru aftur til háskólanáms eftir heimstyrjöldina fyrri. Ég ætti að vita það því ég var einn þeirra…Sósíalisminn hafði lofað okkur betri og réttlátari heimi. Þá birtist þessi bók og vonir okkar hrundu eins og spilaborg. Socialism sýndi okkur fram á að við höfðum horft í öfuga átt í leit að umbótum. Margir samtíðarmenn mínir, sem ég þekkti ekki þá en urðu síðar góðir félagar mínir geta sagt frá sömu reynslu. Wilhelm Röpke í Þýskalandi og Lionel Robbins á Englandi eru tveir þeirra…Socialism hristi rækilega upp í þessari kynslóð…

Óhjákvæmilega varð Mises, leiðtogi frjálslyndra manna um miðbik 20. aldar, bæði í Evrópu, Bandaríkjunum, rómönsku Ameríku og víðar.
Verk Mises höfðu áhrif í fjármagnsfræðum, aðferðafræðum hagvísinda, heimspeki og á fleiri sviðum. Margir álíta Human Action (1949) mikilvægasta almenna fræðiritið um hagfræði á þessari öld. Socialism hefur þó líklega að geyma merkilegasta framlagið því að Mises sýnir þar fram á að skynsamleg nýting framleiðslu er útilokuð njóti eignarréttar ekki við, eða með öðrum orðum þar sem sósíalismi ræður ríkjum. Frjálslyndið var enn á ný, með baráttu sinni fyrir eignarrétti og frjálsum markaði, orðið eina leiðin að mannsæmandi lífskjörum handa öllum. Sósíalisminn var afhjúpaður sem tálsýn.

Ný vígi spretta upp:
New York, London og Chicago

Hugmyndir Mises breiddust út með fyrirlestrum hans við háskólann í Vín. Fyrirlestrana sóttu stúdentar sem seinna urðu áhrifavaldar í hagfræði, félagsfræði, heimspeki og sagnfræði. Hæfileikar Mises til að blása stúdentum eldmóð í brjóst urðu víðfrægir. Henry Simons, einn af stofnendum Chicago-skólans, skrifaði jafnvel að ef dæma mætti af „afrekum margra nemenda hans“ væri Mises „fremsti hagfræðikennari sem nú væri uppi.“
Árið 1940 hafði Mises flúið Vín undan nasistum og flutt sig til New York. Við New York háskóla hóf hann að kenna annað Mises námskeið sem dró að sér nýja kynslóð áhugasamra stúdenta. Meðal þeirra voru Murray Rothbard, Israel Kirzner og Hanz Sennholz, sem héldu áfram að þróa austurríska skólann og hafa áhrif á fleiri stúdenta. Á meðan þessu stóð hafði Hayek flutt sig til London School of Economics en þar hafði myndast kjarni hagfræðinga sem studdu frjálsan markaðsbúskap. Þeirra á meðal voru Edwin Cannan, Sir Arnold Plant, Lionel Robbins, W. H. Hutt og Ronald Coase. Hagfræðingarnir við LSE háðu harða baráttu gegn þrúgandi sósíalískum rétttrúnaði breskra menntamanna. Þeim tókst með þrautseigju að halda lífinu í frjálslyndum hugmyndum fram yfir seinni heimstyrjöldina. Í Þýskalandi fór Wilhelm Röpke fyrir hópi frjálslyndra fræðimanna fram til ársins 1933. Eftir seinna stríð var Röpke helsti fræðilegi áhrifavaldurinn á Ludwig Erhard, fjármálaráðherra og höfund þýska „efnahagsundursins“ á sjötta og sjöunda áratugnum.“

Svo mörg voru þau orð Raicos en þeim sem vilja kynna sér lífshlaup Mises er bent á bókina My Years with Ludwig von Mises sem rituð er ef eiginkonu hans Margit von Mises. Þegar þau giftu sig árið 1938 á Lu, eins og hún kallaði hann, að hafa sagt við hana að hún gæti ekki vænst þess að hann aflaði mikilla peninga um ævina þar sem hann ætlaði sér að skrifa um þá!

Human Action
Human Action

Í Human Action gerir Mises grein fyrir hegðun einstaklinganna, hvernig þeir gera upp við sig hvernig þeir fullnægi best þörfum sínum. Hann bendir einmitt á að enginn geti gert nákvæma grein fyrir ákvörðunum einstaklingana. Enginn geti sett í sig í þeirra spor og þeir eigi því að taka ákvarðanir um sín mál sjálfir. Hann gerir ítarlega grein fyrir óhlutbundnu (subjective) verðmati einstaklinganna. Það mat ákvarðar verðmæti hlutanna en ekki framleiðslukostnaður eða einhliða ákvarðanir framleiðenda eða stjórnvalda. Verð er ekki fast. Ekki er til neitt eitt rétt verð heldur hefur hver einstaklingur sína skoðun og hegðar sér í samræmi við það. Israel Kirzner prófessor við New York háskóla, sem var nemandi Mises við sama skóla, lýsti því nýlega þannig í grein í tímaritinu The Freeman að þegar tveir einstaklingar skipti á 20 dollurum og steik þá sé það augljóst að sá sem lætur steikina af hendi telur hana innan við 20 dollara virði. Sá sem kaupir steikina telur hana hins vegar meira virði en 20 dollarana. Báðir séu því betur settir en fyrir viðskiptin. Mises sjálfur nefnir annað dæmi um þetta óhlutbundna verðmat í Human Action en það er af manni í matvörumarkaði sem þegar hefur sett eitt stykki af vöru sem hann vanhagar um í innkaupakörfuna. Hann telur þetta eina stykki meira virði en uppsett verð. Annað stykki af vörunni metur hann hins vegar einskis. Hann þarf ekki á því að halda. Hann myndi ekki kaupa það fyrir brot af því sem hann greiddi fyrir fyrra stykkið. Það er jaðarábatinn sem skiptir máli. Við hliðana á þessum manni í matvörubúðinni stendur svo hugsanlega annar maður sem ekki myndi hika við að kaupa tíu stykki jafnvel þótt verðið væri tvöfalt hærra.

Human Action er full af efasemdum um ákvarðanir sem teknar eru með „þjóðarhagmuni“ í huga. Þrátt fyrir að að það komi víða fram í bókinni að erfitt sé að spá fyrir umframtíðina, þar sem hún ráðist af óhlutbundnu (subjective) mati einstaklinganna, er engu líkara en skrifin í Human Action um miðstýrð hagskerfi séu eins og spádómur sem rættist þegar Sovétríkin riðuðu til falls. „Þverstæða miðstýrðs hagkerfis felst í því að þar er  ekki mögulegt að stýra neinu af viti. Ekki er hægt að gera áætlanir þar sem verð skortir á öllum vörum. Það verður aðeins fálm í myrkri“, segir Mises. Þau boð sem nauðsynleg eru um hlutfallslegan skort hlutanna vanti en markaðskerfið tryggi þessi boð með verðlagningu. Sósíalisminn er með öðrum orðum óframkvæmanlegur.

Í upphafi voru útgefendur tregir til að taka ritið upp á sína arma. Menn höfðu ekki trú á að hagfræðirit væri mikil söluvara. Annað kom þó á daginn. Bókin seldist fljótlega upp. Önnur útgáfa og endurskoðuð leit þó ekki dagsins ljós fyrr en 1963. Sjálfur var Mises mjög óánægður með þá útgáfu vegna vinnubragða útgefenda og 1966 kom bókin út í þriðju útgáfu hjá öðrum útgefanda. Í ár kom svo fjórða útgáfan út í tilefni afmælisins. Jafnvel þó Human Action hafi það orð á sér að vera erfið yfirferðar, ekki síst fyrstu kaflarnir þar sem Mises kynnir ýmis hugtök til sögunnar, á efni hennar erindi við fleiri lesendur en hagfræðinga. Til að létta mönnum yfirferðina kom fyrir nokkrum árum út bókin Mises Made Easier: A Glossary for Ludwig von Mises’ Human Action eftir Percy L. Greaves, jr. Það er óhætt að mæla með því að menn hafi þá bók við hendina við lesturinn Human Action. Ekki síst þar sem það tekur tíma að lesa yfir 900 síður og því er þægilegt að geta rifjað upp hugtök með því að fletta þeim upp í Mises Made Easier. Það kemur lesendum sjálfsagt á óvart að í 900 síðna hagfræðiriti skuli ekki vera að finna eitt einasta stærðfræðigraf eða líkan. En það er nú einmitt það sem Mises vill leggja áherslu á, að hagfræðin snúist ekki um ástand sem hægt er að setja í stærðfræðiformúlu. Athafnir einstaklinganna eru byggðar á margbrotnari forsendum en rúmast í stærðfræðilíkani.