Laffer-kúrfan lýsir samhengi skatthlutfalls og skatttekna og er þekkt í hagfræðiheiminum. Hún dregur nafn sitt af Arthur Laffer prófessor, en hún á að sýna hvernig skatttekjur lækka þó skatthlutfall hækki, eftir að hlutfallið er orðið of hátt. Arthur Laffer var einn af hugmyndafræðingunum á bak við skattalækkanir Ronalds Reagans á síðasta áratugi en að margra áliti lögðu þær grunninn að sterku efnahagslífi í Bandaríkjunum nú.
Í þýska dagblaðinu Bild kemur þessi skoðun fram, en blaðið birtir í dag viðtal sitt við Laffer. Þar ráðleggur Laffer Þjóðverjum að lækka skatta sína umtalsvert vilji þeir að atvinnuleysi minnki. Hann bendir á að fólk vinni ekki í þeim tilgangi að greiða skatta og því hafi háir skattar slæm áhrif á atvinnustigið, en atvinnuleysi í Þýskalandi er um 10,5%.
Viðkvæðið í Þýskalandi er oft að skattalækkun hjálpi aðeins hinum ríku og er Laffer spurður út í þetta. Hann svarar þessu svo:
Fjarstæða! Hinir ríku greiða hvort eð er lægstu skattana þegar litið er á heiminn í heild. Þeir geta fært sig úr stað og fest fé sitt þar sem það er hagstæðast fyrir þá. Það eru hins vegar þeir fátæku sem líða fyrir háa skatta og í Þýskalandi á þetta sérstaklega við um atvinnulausa í austurhluta landsins. Vandamálið í Þýskalandi eru ekki þeir ríku heldur hinir fátæku. Þið verðið að gera þessa fátæku ríka í stað þess að reyna að gera hina ríku fátæka.