Föstudagur 10. september 1999

253. tbl. 3. árg.

Í bréfi sem Ríkisútvarpið hefur verið að senda fólki undanfarin misseri kemur fram að stofnunin safnar upplýsingum um þau heimili þar sem ekki eru sjónvarpstæki. Í bréfinu segir: „Við samanburð á þjóðskrá og skrá yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins virðist sem þú sért ekki greiðandi afnotagjalda. Ef hinsvegar það er greitt afnotagjald á heimilinu vinsamlega tilgreindu hver greiðandinn er á seðlinum sem fylgir. Ef hvorki er að finna sjónvarps- né útvarpstæki á heimilinu ert þú beðinn afsökunar á ónæðinu.“ Nú er það skýrt í útvarpslögum að greiða á afnotagjöld af sjónvarpstæki en ekki heimili. Enda fást sjónvarpstæki ekki keypt án þess að seljandi skili upplýsingum um það hver keypti sjónvarpstækið til Ríkisútvarpsins. Þeir einu sem skráðir eru fyrir sjónvarpstæki og svíkjast um að greiða afnotagjöldin eru starfsmenn Ríkisútvarpsins, þeirra á meðal G. Pétur Matthíasson sem ritar undir bréfið frá RÚV. Ríkisútvarpið á því ekkert erindi við það fólk sem ekki er skráð fyrir sjónvarpstæki. Alls ekkert erindi. Í bréfinu segir hins vegar að menn megi búast „við frekari fyrirspurnum ef bréfinu verður ekki svarað“. Hvað varð um „afsökunina á ónæðinu“ sem tilgreind var fyrr í bréfinu?

Stundum er sagt að menn fari betur með eigið fé en annarra. Þá er átt við að rekstur einkafyrirtækja eigi að vera skilvirkari en opinberra fyrirtækja. Helgi Hjörvar ætlar sér að afsanna þessa kenningu. Vissulega gekk honum vel að koma eigin rekstri fyrir kattarnef og það jafnvel án þess að greiða það sem vinstri menn nefna sjálfsagt gjald til samfélgsins, en aðrir kalla skatta. Í vor lét hann borgarbúa hins vegar leggja 200 milljónir í borgarfyrirtækið Lína.Net sem átti að bjóða gagnaflutning um rafmagnslínur. Nú hefur helsti samstarfsaðili félagsins sem ætlaði að leggja til tæknina slitið samstarfinu. Lína.Net mun vonandi þegar upp verður staðið eiga fyrir sköttum, a.m.k. holræsagjaldinu, útsvarinu og hinum sköttunum sem Helgi lofaði að hækka ekki.