Fylking vinstri manna hefur nú lagt til að skattar á bensín verði lækkaðir. Þetta kom fram hjá Svanfríði Jónasdóttur þingmanni í gær. Í vor lagði fylkingin hins vegar upp með það sem baráttumál að leggja á almennan koltvíoxíðskatt. Í verkefnaskrá fylkingarinnar fyrir kosningar sagði: Sett verði heildarlöggjöf um umhverfis- og mengunarskatta. Meðal þeirra er almennur koltvíoxíðsskattur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki var sleginn neinn varnagli við almenna koltvíoxíðskattinum í verkefnaskránni. Þar sem stærstur hluti koltvíoxíðsútblásturs á Íslandi kemur frá farartækjum (65%) var augljóst að fylkingin vildi leggja aukna skatta á bensín og olíu, að öðrum kosti væri skatturinn ekki almennur. Það er auðvitað ánægjulegt að fylkingin hefur nú skipt um skoðun í þessu máli. En á meðan hún er svo reikul í ráði er hætt við að hún eigi erfitt uppdráttar.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Neytendasamtökin, verkalýðsfélög og fleiri hafa lagt til að ríkið lækki skatta á eldsneyti í kjölfar mikillar hækkunar á bensíni. En ljóst er að ríkið hagnast verulega á þessari hækkun þar sem krónutala skattsins hækkar með verðinu. Skattar ríkisins magna ekki aðeins upp þessar verðhækkun á eldsneyti heldur tekur vísitala neysluverðs stökk í hvert sinn og verðtryggðar skuldbindingar hækka um leið. Gera má ráð fyrir að hækkun á eldsneyti hafi hækkað vísitölu neysluverðs um 0,85% á þessu ári. Þessi skattlagning er því margfalt böl fyrir hin almenna borgara. Þegar það er haft í huga að tekjur ríkissjóðs af eldsneytissköttum munu fara langt fram úr því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum er það sjálfsögð krafa að ríkið lækki skatta á eldsneyti. Ekki er óvarlegt að áætla að lækkunin geti verið um 10 krónur á bensínlítrann án þess að forsendur fjárlaga raskist.