Fylking vinstri manna sem bauð fram til þings í vor hefur nýlega sent frá sér ályktun þess efnis að ríkisstjórnin beri fulla ábyrgð á þeim vanda sem steðjar að fólki í húsnæðisleit á höfuðborgarsvæðinu. Fylkingin nefnir að leiguverð hafi hækkað verulega og nefnir sérstaklega eitt dæmi um það hve bölvað ástandið er á leigumarkaðinum: Þannig er 50-60 þúsund króna leiga ekki óalgeng fyrir tveggja herbergja íbúð.
Þegar þessi fylking vinstri manna bauð fram í vor boðaði hún hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 40%. Fjármagnstekjuskattur leggst meðal annars á leigutekjur. Ef þetta baráttumál fylkingarinnar næði fram að ganga myndi leigusali þurfa að hækka leigu á íbúð sem hann leigir í dag á 55.000 krónur í 82.500 krónur til að fá sömu tekjur af íbúðinni og áður, eftir að skattar hafa verið dregnir af honum. Svo há skattlagning á leigu eins og fylkingin boðaði (og Vinstri grænir einnig) myndi vafalaust draga enn frekar úr framboði á leiguhúsnæði og þrýsta verði upp.
Í bókinni Samtöl II ræðir Matthías Johannessen við argentínska skáldið Jorge Luis Borges. Segir Matthías svo frá: Við gengum um bæinn. Fyrir framan Alþingishúsið hrópaði hrópaði Borges sigri hrósandi: Þetta er þá þinghúsið ykkar, þetta er þá allt og sumt! Þið getið andað hérna fyrir stjórnvöldum.
Undanfarið hefur verið unnið að því að steypa sökkul undir stækkun á Alþingishúsinu. Mun grunnurinn vera einn sá þykkasti og dýrasti í Íslandssögunni. Menn geta þó andað léttar í bili því að í gær bárust af því fréttir að ríkisstjórnin íhugi að fresta byggingu hússins.