Mikið hefur verið rætt síðustu vikur um málefni sem tengjast Fjárfestingarbanka atvinnulífsins með einum eða öðrum hætti. En um hvað snýst sú furðulega umræða? Snýst hún um að aðilar úti í bæ hafi ekki fylgt stefnu ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild? Það getur varla verið því einkaaðilum er ekki skylt að taka tillit til stefnu ríkisstjórnar við ákvörðun um fjárfestingar.
Snýst umræðan ef til vill um að tiltekið fjármálafyrirtæki hafi ekki fjárfest með réttum hætti fyrir viðskiptavini sína og jafnvel makað krókinn á þeirra kostnað? Því hefur verið haldið fram að bréf í FBA hafi hækkað eftir að þau voru seld, en það þarf ekki að þýða að fyrirtækið hafi ekki staðið sig í stykkinu. Það gat enginn verið viss um hvert verð FBA yrði síðar, þannig að augljóst er að um áhættu var að ræða. Þegar fjárfest er setja menn eignir á borð við hlutabréf oftast í söfn og dreifa þannig áhættunni. Söfnin eru svo misjafnlega saman sett eftir því hvað hentar hverjum fjárfesti. Þannig er alls ekki sjálfsagt að þó einn aðili vilji safna bréfum fyrir tiltekið gengi þá hljóti annar aðili að tapa á að selja honum á því gengi. Áætlanir fjárfesta og vilji þeirra til að taka áhættu eru afar misjafnar og því er ekki hægt að halda því fram að fjármálafyrirtæki hafi fjárfest ranglega þó að eftir á megi sjá að bréf hafi hækkað. Telji einhverjir hins vegar að á þeim hafi verið brotið geta þeir leitað réttar síns fyrir dómstólum, en afar hæpið er að skynsamleg niðurstaða fáist í það mál með pólitískri kappræðu.
Fór umræðan ef til vill af stað vegna þess að eignarhaldsfyrirtæki í Lúxemburg sem keypti í FBA lét ekki vita nægilega snemma hverjir ættu í því? Það getur tæplega verið, því slík mál hlýtur að eiga að leysa með öðrum hætti en pólitískri umræðu.
Hvað er þá eftir? Í raun ekkert sem snertir stjórnmál, en hugsanlega eitthvað sem þarf að útkljá á öðrum vettvangi. Umræðan hefur því verið óþörf og jafnvel skaðleg og illt ef hún verður til að draga athyglina frá því sem mikilvægt er: Að selja afganginn af ríkisviðskiptabönkunum.
Það má þó segja að eitt gott hafi komið út úr þessari umræðu, þ.e. að bankar eiga ekki heima í eigu ríkisins. Vonandi verður unnið að því af kappi á næstunni að selja það sem eftir er af ríkisviðskiptabönkunum til að fjármálakerfið hér geti haldið áfram á þeirri þroskabraut sem það hefur verið á síðustu árin.