Á myndinni hér til hliðar má sjá Waikiki ströndina á Hawaii og Demantshöfða skaga út í Kyrrahafið. Myndin er fengin af heimasíðu sem ætlað er að laða ferðamenn til eyjanna. Ef myndin næði aðeins lengra inn á landið mætti sjá hótelháhýsi sem standa þar í röðum. Líklega telja þeir ferðafrömuðir sem tóku myndina það ekki vera staðnum til framdráttar að háhýsin sjáist þótt ferðamennirnir komi til með að dvelja á þessum hótelum.
Demantshöfði var bitbein náttúruverndunarsinna og hóteleigenda og byggingaverktaka á sjöunda áratugnum en upp úr 1960 fjölgaði ferðamönnum verulega á Hawaii. Hin einstaka náttúra Hawaii laðaði svo marga ferðamenn til eyjanna að byggingaframkvæmdir vegna þessara sömu ferðamanna fóru að skyggja á fegurðina. Það var ekki fyrr en árið 1967 sem yfirvöld á staðnum ákváðu að ekki mætti byggja meira á strandlengjunni og Demantshöfði var friðaður. Það sem vekur auðvitað undrun er að verndunarsinnar gerðu enga tilraun til að kaupa svæðið heldur treystu á yfirvöld á staðnum. Þetta mál minnir nokkuð á baráttu sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna á Íslandi fyrir friðun Eyjabakka. Þeir telja vænlegast til árangurs að suða í stjórnvöldum um umhverfismat á vegum stjórnvalda – sömu stjórnvöldum og hafa stefnt að því frá iðnaðarráðherradögum Hjörleifs Guttormssonar að leggja staðinn undir virkjun.
The Nature Conservancy er félag um náttúruvernd sem hefur keypt og tekið að sér land Bandaríkjunum frá 1953 í þeim tilgangi að vernda svæðin. Samtökin eru stundum nefnd fasteignasali náttúrunnar. Þau eru rekin fyrir frjáls framlög og hafa nú umsjón með eða eiga yfir 1500 svæði í Bandaríkjunum. Ef það er rétt sem talsmenn friðunar Eyjabakka segja um stuðning landsmanna við málstað sinn eiga þeir auðvitað að láta á það reyna að kaupa Eyjabakka. Verðið sem þeir þurfa að greiða er væntanlega munurinn á þessum virkjunarkosti og þeim sem næstbestur þykir. Meintum meiri hluta þjóðarinnar ætti að veitast það létt að skrapa saman fyrir þessu. Græningjar í öðrum löndum munu vafalaust leggja í púkkið ef þeir meina eitthvað með því sem þeir gaspra um Eyjabakka þessi misserin. Því miður er óljóst hver á Eyjabakka og því miður er það líklega ríkið. Því miður sér ríkið um nær alla framleiðslu, dreifingu og sölu á rafmagni hér á landi. Því miður er þar með allt tal um að hagkvæmni ráði því hvar og hvenær er virkjað hjóm eitt. Er ekki nóg að nefna Kröflu og Blöndu til þess að menn átti sig á að önnur sjónarmið en hagkvæmni ráði endilega för? Samanburður á hagkvæmni Eyjabakka og annarra virkjanakosta er því ekki til í dag.
Vef-Þjóðviljinn er einmitt rekinn fyrir frjáls framlög lesenda. Hér getur þú látið þitt af mörkum.