Einn helsti kostur borgarinnar og það sem gerir hana að borg frekar en sveit er þéttbýli. Í þéttbýli eiga menn kost á miklum samskiptum við fjölda fólks á hverjum degi, öll þjónusta er innan seilingar og mannlífið fjölskrúðugt. Óneitanlega fylgir þessu mikla nábýli að menn þurfa að vera undir það búnir að sjá til næsta manns, heyra konuna hans skamma börnin, hlusta á hann reyna að koma bílnum sínum á gang á vetrarmorgnum og þola hræðilegan tónlistarsmekk hans af og til. Í Reykjavík í dag virðist hins vegar búa nokkur hópur fólks sem telur þéttbýli ekki henta sér eða sættir sig ekki við fylgifiska þess. Til dæmis kvarta menn talsvert yfir umferð og hávaða frá bílaumferð þótt þeir hafi keypt sér hús við umferðargötu. Flugvöllur þar sem örfáar vélar lenda á daginn fer í taugarnar á fólki. Glasaglamur, tónlist og skvaldur frá skemmtistöðum er tilefni blaðaskrifa. Kettir mega ekki lengur fara sínar eigin leiðir samkvæmt reglugerð frá Helga P. Það merkilega er að margt af þessu fólki flytur einmitt í þann bæjarhluta þar sem mestar líkur eru á fyrrnefndu ónæði.Úthverfi Reykjavíkur eru sum beinlínis hönnuð með það í huga að fólk verði sem minnst vart við bílaumferð og hljóð frá veitingahúsum og þjónustustarfsemi. Það gæti hentað fólkinu með hljóðofnæmið betur á flytja á slíka staði.
Annar angi af óþoli þessa fólks er andstaða þess við hvers kyns framkvæmdir. Vef-Þjóðviljinn minntist á það fyrr í sumar að Háskóli Íslands er að byggja stórt hús í Vatnsmýrinni. Það vekur nokkra furðu að svo stórt hús á þessum stað skuli ekki vekja upp mótmæli en nú orðið mega menn ekki velta við steini sig innan borgarmarkanna án þess að stofnaður sé áhugamannahópur til höfuðs framkvæmdinni. Það hefur vonandi ekkert með það að gera að nokkur hluti þess fólks sem líklegastur var til að mótmæla byggingunni fær vinnuaðstöðu í húsinu. En gamlar hugmyndir um að byggja á túni í Laugardalnum eru allt í einu orðnar tilefni til stofnunar sérstakra samtaka. Sömu sögu má segja af lagfæringum á flugvellinum. Vafalaust hafa báðir hóparnir nokkuð til síns máls en málflutningur þeirra einkennist nokkuð af fyrrnefndu ósætti við það að búa í borg. Vef-Þjóðviljinn gerir auðvitað ekki ráð fyrir því að borgarstjórnin í Reykjavík muni láta almannaheill ráða ferð í þessum málum frekar en aðrir opinberir aðilar. Best skipulagði þrýstihópurinn mun hafa sigur í þessum málum sem flestum öðrum þar sem stjórnmálamenn taka ákvarðanir.