Enn einu sinni er komin upp deila vegna leigubifreiðaaksturs. Nokkrir leigubílstjórar hafa sent samgönguráðherra kvörtunarbréf þar sem þeir kvarta yfir háum stöðvargjöldum en samkvæmt lögum eru þeir skyldaðir til að vera bundnir einhverri leigubílastöð. Það er auðvitað ótækt að samgönguráðherra eða embættismenn hans þurfi hvað eftir annað að eyða tíma sínum (og peningum skattgreiðenda) í að setja sig inn í hin ýmsu deilumál leigubílstjóra og finna á þeim lausnir. Betra væri að gefa leigubílaakstur frjálsan og láta markaðinn sjá um að leysa aðsteðjandi vandamál en ekki stjórnmálmenn eða möppudýr í ráðuneyti. Þannig kæmist á samkeppni í greininni og líklegt er að það yrði bæði bílstjórum og neytendum til hagsbóta.
Með frelsi á þessu sviði gætu leigubílstjórar ráðið því sjálfir hvort þeirværu einyrkjar eða festu sig ákveðinni stöð. Stöðvareigendur fengju þannig mun meira aðhald en áður og þeir, sem næðu ekki að halda kostnaði í skefjum, myndu fljótlega missa bílstjóra. Frelsi í leigubílaakstri kæmi þó líklega neytendum best. Með ótakmörkuðum aðgangi að greininni yrði skortur á leigubílum ekki lengur óviðráðanlegt vandamál á annatímum, t.d. um helgar og á gamlárskvöld. Þá kæmist á verðsamkeppni í greininni en í allri atvinnustarfsemi, þar sem samkeppni hefur komist á, hefur hún leitt til lægra verðs.