Sjálfbær þróun er eitt af þessum hugtökum sem rata inn í umræðuna án þess að nokkur virðist geta gert þokkalega grein fyrir fyrir hvað hugtakið stendur. Einar Þorsteinn hönnuður ritaði grein í fasteignablað Morgunblaðsins á þriðjudaginn og upplýsir þar að hann hafi undanfarin þrjú ár þegið opinbera styrki til að taka saman skýrslu um sjálfbærni bygginga heima og erlendis. En ekki nóg með það. Einar boðar byggingu fyrsta sjálfbæra hússins sem stendur undir nafni hérlendis. Frásögn Einars af sjálfbæra húsinu minnir þó á söguna af naglasúpunni góðu. Þannig verður rigningarvatni safnað í tjörn á lóðinni. Hvítvatnið (sem mun vera kranavatnið) verður sparað með vatnssparandi tækni. Svartvatnið úr húsinu (svartvatnið samanstendur af lágmarks vatnsmassa og föstum mannlegum úrgangi) verður leitt í þrær sem komið verður fyrir á lóðinni. Skilvinda mun skilja sápu og og önnur föst efni úr grávatninu. Grávatnið er svo leitt í gróðurskálann. Ekki þarf að spyrja að því að einangraður safnhaugur verður við húsið. Auðvitað verður ekki bruðlað með þurrkara í þessu húsi heldur verður lóðin í stærra lagi svo hægt sé að hengja þvott til þerris í íslenska votviðrinu.
Það fylgir ekki sögu Einars hvort skilvindurnar, þrærnar og allar auka lagnirnar sem þarf til að halda svart-, hvít- og grávatninu aðskildu eru sjálfbærar í framleiðslu. Þarf ekki orku til að framleiða þetta dót? Er það sjálfbært að stækka lóðir sem hús standa á þótt það sé gert í þeim göfuga tilgangi að þurrka þvott? Fylgir því ekki meiri gatnagerð, lengri lagnir milli húsa og lengri akstursvegalengdir? Hvað með garðskálann? Þarf ekki að framleiða glerið og stálið í hann? Eru fylgismenn sjálfbærrar þróunar ekki andvígir öllu burðli af þessu tagi með auðlindir jarðar?
Bruðlinu í hönnun þessa sjálfbæra húss er þó ef til vill best lýst með því að áætlanir gera ráð fyrir að húsið verði 150 fermetrar og kosti 25 milljónir króna í byggingu.