Miðvikudagur 18. ágúst 1999

230. tbl. 3. árg.

Sama liðið og talar mest um að gera Ísland að „sjálfbæru vetnisþjóðfélagi“ virðist mest á móti því að virkja fyrir norðan Vatnajökul en fleiri vatnsaflsvirkjanir eru þó forsenda þess að hægt sé að skipta úr olíu yfir í vetni. Það þarf orku til að framleiða vetnið sem brenna á bílum og skipum í stað olíunnar. Þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum um það hvernig málflutningur sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna stangast á. Í helgarsproki Vef-Þjóðviljans í janúar á síðasta ári voru rakin nokkur slík dæmi:

„Einn daginn er maður fylgjandi rafmagnsbílun en á móti þeim þegar maður kemst að því að rafmagnið er fengið úr kolakynntu raforkuveri eða kjarnorkuveri. (Það eru mjög fá lönd sem framleiða rafmagn í jafnmiklum mæli með vatnsafli og Ísland). Næsta dag er maður eindregið fylgjandi vindmyllum  en á móti þeim þegar þær valda sjómengun og hávaðamengun og (sjaldgæfir) fuglar fá að kenna á spöðunum.

Svo er maður fylgjandi sólarorku þangað til sólarorkuverunum er komið fyrir á veðursælustu stöðunum og í ljós kemur að þau taka meira pláss og eru orkufrekari í byggingu en önnur orkuver. Vatnsaflsvirkjanir  hljóta að vera góðar þar til í ljós kemur  að þær trufla vatnsflæði áa og trufla líffríki þeirra. Þá er best að snúa sér að lífrænni ræktun eða þar til ryðja þarf ósnortið land undir lífrænu ræktunina þar sem hún skilar margfalt lakari uppskeru á fermetra en ræktun með tilbúnum áburði. Lífræn ræktun krefst einnig meiri orku til að ná sömu uppskeru. Endurnýting pappírs getur þó varla klikkað þangað til fréttir berast af því að pappinn er ekki unninn úr regnskógunum heldur kanadískum og skandínavískum nytjaskógum þar sem fjórum trjám er plantað fyrir hvert sem höggvið er.

Það ætti þó að minnsta kosti að vera óhætt að leggja skatta á útblástur koldíoxíðs nema verksmiðjur flytji bara til annarra landa þar sem lakari tækni er notuð og orkusóun og útblástur er meiri. Þá er maður   fylgjandi banni við meintum ósoneyðandi efnum þar til í ljós kemur að þau efni sem notuð eru í staðinn eru orkufrekari í framleiðslu og notkun og valda því auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Nýju efnin eru líka dýrari og því færri sem geta nýtt þau til að kæla matvæli sín. Ótrygg geymsla matvæla er ávísun á aukna sjúkdóma. Það ætti þó að vera óhætt að kalla sig náttuverndarsinna og dýravin þótt það sé hálfgerð þversögn þar sem náttúran sjálf hefur séð um að útrýma 99,9% allra dýra og plantna sem lifað hafa á jörðinni.“