Þriðjudagur 17. ágúst 1999

229. tbl. 3. árg.

Ekki er annað að sjá en að Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafa gleymt nokkrum helstu kostum hins frjálsa markaðar. Að minnsta kosti ef marka má ummæli hans um kaup á hlut nokkurra kaupsýslumanna á hlut í FBA. Eitt af því sem Hannes virðist hafa gleymt er að bæði hluthafar og viðskiptavinir einkafyrirtækja geta leitað annað ef þeim sýnist svo. Þeir sem vilja síður eiga viðskipti við ákveðna aðila færa viðskipti sín annað. Hluthafar sem kæra sig ekki um að vera í kompaníi með vissum mönnum geta selt hlutinn sinn og sett féð á beit annars staðar. Vinstri-grænir hafa heldur ekki áttað sig á þessu og álykta nú um að stöðva beri einkavæðingu á stofnunum í almannaeign á þeirri forsendu að mikil samþjöppun á fjármagni eigi sér stað og „fyrir vikið verði almenningur af eignum sem verið hafi á hans forræði.“ Hið rétta er auðvitað að almenningur hefur ekkert forræði yfir þessum eignum. Finnur Ingólfsson hefur meiri hluta í öllum ríkisbönkunum. Maðurinn á götunni getur ekki selt hlut sinni í þessari almanneign þótt hann vilji ekki vera með Finni í félagi. Einu skiptin sem leitað er til almennings varðandi stjórn þessara fyrirtækja er þegar þau eru komin í þrot eins og nýleg dæmi um Landsbankann og Útvegsbankann sanna. Og þá er fálmað í vasa almennings.

„Auðvitað eiga allir landsmenn að greiða Ríkisútvarpinu afnotagjald…,“ segir Jón Ásgeir Sigurðsson formaður Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins í DV í gær. EN. „En fastráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins fá afnotagjöld felld niður eftir þriggja ára starf og það er gert samkvæmt ráðherrabréfi Vilhjálms Hjálmarssonar frá 1977.“, segir Jón Ásgeir einnig. RÚV er annað dæmi um almannaeign þar sem „forræði“ eigendanna flest í því að greiða skatt til stofnunarinnar. Jafnvel þótt sett séu lög sem kveða skýrt á um að allir, bæði starfsmenn og aðrir, eigi að greiða til stofnunarinnar ákveður ráðherra með snotru bréfi að hlutirnir eigi að vera öðruvísi.