Í júníhefti tímaritsins Reason er greinarkorn um verslun á Internetinu en á síðasta ári keyptu Bandaríkjamenn vörur fyrir 550 milljarða króna í gegnum Internetið og gera áætlanir markaðsfyrirtækja ráð fyrir að verslunin á Netinu tvöfaldist á hverju ári næstu árin. Neytendum líkar greinilega að panta flest milli himins og jarðar um Netið. En það eru ekki allir jafn ánægðir með þessa þróun. Nefnd nokkurra ríkisstjóra í Bandaríkjunum hefur áhyggjur af því að skattar af þessum vörum skili sér ekki til yfirvalda, eða öllu heldur séu ekki innheimtir enda seljandi og kaupandi yfirleitt ekki staddir í sama ríki og erfitt fyrir yfirvöld að fylgjast með viðskiptunum. Þeir hafa því boðað að leggja sérstakan skatt á alla verslun á Netinu og kenna skattinn við 21. öldina.
Austan Goolsbee er hagfræðingur við Chicago háskóla telur hins vegar samkvæmt greininni í Reason að skattlagning netverslunar myndi draga mjög úr vexti hennar. Til dæmis áætlar hann að 5% skattur myndi minnka viðskipti um 23%. Menn geta þó andað rólega í bili því að á síðasta ári samþykkti Bandaríkjaþing þriggja ára frestun á öllum nýjum sköttum á Internetið. Hins vegar er ekki gott að segja hvað gerist árið 2001 þegar sá frestur er úti.
Þeim sem vilja taka þátt í að auka veltuna á Netinu má til dæmis benda á að útgáfa Vef-Þjóðviljans er kostuð með frjálsum framlögum lesenda.