Oft tala stjórnmálamenn og yfirvöld um mikilvægi þess að fá erlenda starfsemi inn í landið. Og svo er talað um mikilvægi mannauðs í nútímasamfélagi. Ein tegund mannauðs er þó ekki ofarlega á vinsældarlista yfirvalda. Það er sá mannauður sem felst í því að dansa erótískan dans fyrir áhugasaman landann. Sú þjónustustarfsemi hefur fengið yfir sig miklar gusur frá ýmsum fulltrúum hins opinbera og má þar nefna Pál Pétursson félagsmálaráðherra, sem telur vafasamt að erótískir dansarar sem fækka fötum á skemmtistöðum séu listamenn. Páll treystir sér líklega til að skilgreina hugtakið listamaður svo ekki verði um deilt. Hver veit nema hann sé meira að segja tilbúinn til að sýna hvernig slíkur dans má vera til að teljast listdans.
Annar fulltrúi hins opinbera hefur tjáð sig um þetta brýna mál sem erótíski listdansinn er, en það er Helgi Hjörvar nýsleginn forseti borgarstjórnar. Hann sér ekki að þessir staðir geti starfað lengur án skýrari reglna, en hins vegar hefur hann ekki lagt sérstaka áherslu á að þeir verði teknir til skattrannsóknar. Það hefur annar fulltrúi hins opinbera hins vegar gert, en í Ríkisútvarpinu í gær kom fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins hefði staðfest að málefni nektardansstaða væru nú til meðferðar hjá embætti hans.
En nú hefur forstjóri Vinnumálastofnunar talað og landslýður getur því varpað öndinni léttar og þarf ekki að hafa frekari áhyggjur af þessu máli. Þessi ríkisstarfsmaður upplýsti í viðtali við Ríkisútvarpið í gær að hálfkæringur og grín hafi einkennt umræður um starfsemi nektardansstaða á Íslandi. Af þeirri ástæðu hafi ekki tekist að taka málið föstum tökum. Auðvitað má ekki ræða þetta í hálfkæringi þvert á vilja forstjóra Vinnumálastofnunar. En þessi umræða mun geta farið í skynsamlegri farveg en verið hefur hingað til og þjóðin getur því kæst á ný. Fengist hefur skýring á því hve illa hefur gengið að taka nektardansmeyjarnar föstum tökum. Ástandið hefur enda verið alls ótækt í langan tíma: Inni á umræddum dansstöðum munu dansarar nefnilega hafa stundað það að dansa, án þess að ríkisstarfsmenn hafi áður löggilt próf dansaranna í listdansi eða gefið út löggilt dansleyfi. Ef þessi listgrein þróast með svipuðum hætti og aðrar hér á landi mun þess ekki langt að bíða að hér rísi Erótíski listdansháskólinn, þar sem erlendum sem innlendum dönsurum verður kennt að dilla sér svo þjóðinni sé sómi að.