Eins og menn muna og finna enn á buddunni sinni var tekjuskattur hækkaður mjög frá því staðgreiðsla skatta var tekin upp og allt fram á síðustu ár þegar hann tók að lækka nokkuð, án þess þó að hann hafi verið lækkaður niður í það sem hann var þegar staðgreiðslan var tekin upp. Ein helsta afsökunin fyrir þessum sífelldu skattahækkunum var halli á ríkissjóði. Þó voru það sömu menn sem ákváðu hin háu útgjöld ríkisins, sem höfðu hallann í för með sér, og notuðu hallann svo til að réttlæta skattahækkanir. Nú er hefur staðan batnað að því leyti að ríkissjóður er rekinn án halla (að vísu mest vegna aukinna tekna en ekki niðurskurðar) en þá eru það sveitarfélögin sem rekin eru með dúndrandi halla. Ráð þeirra við eigin útgjaldafylleríi er að velta kostnaðinum yfir á skattgreiðendur.
Nefna má tvö dæmi um skilningsleysi sveitarfélaga á nauðsyn þess að fara vel með almannafé. Hið fyrra er af bæjaryfirvöldum á Akureyri sem eru að selja hlutabréf í Útgerðarfélagi Akureyrar og búast við að fá fyrir þau hálfan annan milljarð króna. Vefþjóðviljinn fagnar þessari sölu vitaskuld enda mikilvægt að sveitarfélög dragi sig úr atvinnurekstri, hvort sem hann er fiskflökun, tónleikahald eða barnagæsla. En viðtal í Degi-Tímanum fyrir helgi við Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra dregur nokkuð úr fagnaðarlátunum. Þar sagði bæjarstjórinn að þegar kæmi að ráðstöfun söluverðsins yrði af nógu að taka: Eðlilega hefur verið rætt um að atvinnulífið fái vítt og breitt að njóta góðs af þessu. Allt frá því að hafa nægilegt framboð af leikskólarýmum til nýsköpunar í atvinnulífinu. Það er semsagt stefnt að því einu með sölunni að auka opinbera reksturinn annars staðar. Dettur þessum mönnum ekki í hug að lækka útsvörin á bæjarbúa?
Seinna dæmið er gjafaferðir SVR frá bílastæðum við Háskólann niður í miðbæ. Uppgefinn kostnaður við þessa gjöf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er 2,9 milljónir króna en þá er ekki gert ráð fyrir auglýsingum og endurbótum á bílastæðum. Varlega áætlað má því gera ráð fyrir um 5 milljóna króna útgjöldum vegna þessara ferða, en samkvæmt vagnstjóra leiðarinnar munu farþegar yfirleitt vera 1-2, en stundum enginn. Hann taldi þó að það hefði einhvern tímann gerst að fimm væru í vagninum í einu. Kristín Einarsdóttir líffræðingur og fyrrverandi þingmaður kvennalistans, en núverandi miðbæjarstjóri, telur þrátt fyrir þessar tölur að tilraunin hafi ekki misheppnast. Og hún telur jafnframt að ekki megi meta verkefnið á neikvæðan hátt, hvað sem það nú þýðir. Líklega má þá ekki segja frá því að verkefnið kosti mikið en skili engu.
Þess má geta að áður var þessi sami vagn í venjulegum ferðum fyrir SVR og þurfti fólk þá að greiða fyrir farið. Það greiddi auðvitað ekki raunverð frekar en á öðrum leiðum, en eitthvað þó. Þá voru farþegar með vagninum hátt í 20 á klukkustund eða mun fleiri en nú er þrátt fyrir að nú kosti ekkert að sitja í honum. Ef þetta er ekki misheppnað verkefni og sóun á almannafé þá er það bara af því að ekki má meta verkefnið á neikvæðan hátt.