Helgarsprokið 11. júlí 1999

192. tbl. 3. árg.

Síðustu Alþingiskosninga verður meðal annars minnst fyrir vandræðagang þeirra vinstri manna sem í nafni sameiningar sinnar tefldu fram gömlu liði sínu undir nýjum merkjum. Sérstaklega fóru þeir illa út úr öllum umræðum um stefnu þeirra í efnahagsmálum og urðu fleyg orð Guðmundar Ólafssonar hagfræðings um hinn „nýja“ flokk. Guðmundur starfaði lengi innan Alþýðubandalagsins en fór þaðan til Þjóðvaka (sameiningarklofningsins ’95) og studdi hann um tíma. Síðustu helgi talaði helgarblað Dags-Tímans við Guðmund og lýsti hann þá þróun skoðana sinna:

„Eins og ég sagði,“ sagði Guðmundur, „[…] þá hugsaði ég um tíma eins og þetta fólk [þ.e.a.s. vinstri menn]. Og af því ég var svo ofboðslega vitlaus gerði ég mér enga hugmynd um mikilvægi viðskipta. […] þegar maður les Kiljan, þá sér maður að rauður þráður í verkum hans er tortryggni gagnvart öllum sem stunda atvinnustarfsemi og þó einkum og sér í lagi verslun. Hann segir á einum stað að viðskipti séu að kaupa ódýrt og selja dýrt. Í því liggur sá skilningur að kaupmaðurinn sé þjófur, hann nýti sér erfiða aðstöðu kaupandans og svíni á honum. Þessi skilningur er í besta falli barnalegur en ef hann verður útbreiddur er hann þjóðarböl. Viðskipti skapa arð og það er líklega engin atvinnustarfsemi sem hafur skilað vestrænum þjóðum jafn miklum arði á 20. öld og einmitt viðskipti. Það að fólk hafi hag af að skipta hvert við annað varðveitir friðinn betur en allt þetta orðagjálfur menntamanna um „peace on earth“.“.

Guðmundur ræddi einnig um tímasprengjuna víðfrægu og vinnubrögð fréttafólks: „Við skulum til dæmis taka þessa hugmynd um tifandi tímasprengju sem kom nokkuð sögu í síðustu kosningabaráttu. Þar er á ferð mjög lærdómsríkt dæmi sem er ástæða til að staldra við, sérstaklega fyrir íslenska fréttamenn og fjölmiðlafólk sem brugðust þar ansi illa. Þannig gerist það að stjórnmálamaður reynir að að ná athygli kjósenda með krassandi orðum sem ég vil kalla gífuryrði. Síðan hlaupa fréttamenn til og verða að óskum stjórnmálamannsins og eiga við hann viðtal í nafni gífuryrðanna og vegna þeirra. Að baki gífuryrðanna er engin analýsa, engin rannsókn, heldur er bara bent á einn þátt, […] viðskiptahallann. Forstöðumaður Hagfræðistofnunar skrifar síðan vandaða grein í Vísbendingu, þar sem hann lýsir breytingum á efnahagssviðinu undanfarin ár. Þingmaðurinn kemur síðan aftur í viðtal, hnykkir á og segir að sennilega hafi forstöðumaður Hagfræðistofnunar fengið greiðslur hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir að halda þessu fram. Við venjulegar aðstæður hefði allt átt að verða vitlaust en blaðamenn og fréttamenn depluðu ekki auga. Það er sjálfsagt mál að efast um fullyrðingar hagfræðinga en menn verða að gera það með rökum, á heiðarlegan hátt.“

Þarna víkur Guðmundur að langvarandi vandamáli íslenskrar stjórnmálaumræðu; almennri vanhæfni fjölmiðlafólks og hrifningu þess á upphrópunum og fullyrðingum. Fréttamenn láta sér ekki einu sinni nægja að birta gagnrýnislaust stóryrði sumra stjórnmálamanna heldur virðast sumir fréttamenn beinlínis elta þau uppi. Með því að hafa regluleg upphrópanaviðtöl við þá stjórnmálamenn sem finnst svo til allt vera hneyksli, spilling og siðleysi, geta þeir fyllt fréttatímana sína af stóryrðum og svarviðtölum. Þannig er einnig hægt að halda umræðu gangandi án þess að þurfa að setja sig eða aðra inn í kjarna máls en slíkt krefðist jafnvel fyrirhafnar og ákveðinnar grunnþekkingar á ýmsu öðru en „fjölmiðlafræði“.

Það er kjörlendi fyrir glamurflokk eins og nýjasta krataflokkinn þegar fréttamennska er á slíku stigi. Reyndar eiga vinstri flokkar gengi sitt undir því að fréttatímarnir séu einkum opnir stóryrtum stjórnmálamönum sem ekki þurfa að standa við skoðanir sínar lengur en þeim hentar og skipta þeim út fyrir nýjar með reglulegum hætti eftir því sem vindar blása. En vinstri flokkunum tveimur sem nú starfa á þingi lýsir Guðmundur Ólafsson með þessum orðum: „Samfylkingin er fyrst og fremst orðagjálfur og það skiptir ekki svo miklu máli hvað verður um orðagjálfrið. Þetta er hávaði í fólki sem reikar um með skoðanir út og suður. Málatilbúningur Vinstri-grænna á aftur á móti lítið skylt við stjórnmálaskoðanir, að mínu viti. Einhver sagði að þar væri búið að sameina þá sem hefðu rangt fyrir sér í öllum málum.“