Þær eru ófáar fréttirnar sem Ómar Ragnarsson hefur sýnt landsmönnum um hinar ýmsu hliðar hálendisins í tengslum við umræður um virkjanir og atvinnuuppbyggingu. Oft eru þessar fréttir reyndar líkari áróðursmyndum gegn nýtingu hálendisins til raforkuframleiðslu en því sem yfirleitt kallast fréttir. Dæmi um það mátti glöggt sjá í gær þegar Ómar flutti afar langan pistil og skreið um Eyjabakka til að fanga sem flestar gæsir á filmu í þeim tilgangi að reyna að sannfæra landsmenn um að ekki megi virkja á þessu svæði. Nú er út af fyrir sig ekki ásæða til að amast við því að Ómar eða aðrir komi sjónarmiðum sínum á framfæri. Síst ætlar Vefþjóðviljinn að gera athugasemdir við að menn hafi skoðanir, en þeir verða að setja þær fram þar sem það á við. Það á t.d. ekki við að nota skattfé Austfirðinga og annarra landsmanna til að berjast í fréttatímum Ríkissjónvarpsins gegn atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Þetta er álíka óviðeigandi og ef fréttamaður ríkisins mundi elta atvinnulausan Austfirðing í einn dag og láta þess getið í langri umfjöllun um manninn í fréttatíma að með virkjun á Austurlandi fengi þessi maður næga vinnu.
Helgi Hjörvar hefur lengi verið félagi í Alþýðubandalaginu, flokknum sem hefur nýtt hvert tækifæri til að vera með ranga stefnu. Meginstefna flokksins, að ekki sé minnst á forvera hans Kommúnistaflokkinn og Sameiningarflokk alþýðu – sósíalistaflokkinn, hefur verið að ríkið taki ákvarðanir fyrir einstaklingana, til dæmis með því að ríkið reki fyrirtæki. Hefur flokkurinn hafnað einkavæðingu. Helgi hefur ekki látið sitt eftir liggja í þessum málum og hefur að undanförnu slegið um sig í fjölmiðlum með því að Orkuveita Reykjavíkur, þar sem hann situr í stjórn, muni fara í samkeppni á markaði um veitingu Netþjónustu. Á þeim vettvangi er ríkið á leiðinni út samkvæmt yfirlýstri stefnu um sölu Landssíma Íslands. Það er því Reykjavíkurborg, með Helga báknið burt Hjörvar í broddi fylkingar, sem heldur merki opinberra afskipta og útþenslu hins opinbera hátt á lofti. Því kemur úr hörðustu átt þegar Helgi gagnrýnir aukin umsvif Landssímans í fjarskipta- og fjölmiðlamálum eins og hann gerði í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag. Ef Helgi meinar eitthvað með því sem hann segir í þeirri grein verður lítið úr fyrirhugaðri innrás Orkuveitu Reykjavíkur á fjarskiptamarkaðinn, því Helgi mun snarlega hætta við hana. Ef ekki eru skrif Helga í Morgunblaðið í besta falli dæmi um hlægilegt pólitískt gaspur.