Á baksíðu DV á mánudag voru tvær litlar fréttir af höfuðborgarsvæðinu. Önnur var af mikilli eftirspurn eftir lóðum í Kópavogi en þar sóttu 20 – 25 um hverja lóð sem í boði var. Hin fréttin var af mikilli umferðarteppu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en á sunnudaginn tók meira en tvær klukkustundir að aka frá Hvalfjarðargöngunum til höfuðborgarinnar. Byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu er úthlutað af opinberum nefndum. Vegagerð er einnig ákveðin af opinberri nefnd. Í Sovétríkjunum sálugu var skortur á flestu. Þar var líka framboð á flestu ákveðið af opinberum nefndum.
Ríkið leggur mikla skatta á bíleigendur og eiga þeir að skila sér til vegagerðar. Oft hefur orðið misbrestur á því og þegar féð skilar sér lendir það ekki endilega þar sem umferðin er heldur þar sem hreppapólitíkin er mest hverju sinni. Einkavegir, eins og Hvalfjarðargöngin, hafa víða um heim komið í stað vega ríkisins. Kosturinn við einkavegi er að notendur þeirra greiða fyrir þá en ekki einhverjir aðrir. Nú er orðið mjög einfalt að rukka fyrir akstur um einkaveg án þess að tefja umferð að ráði. Það hlýtur því að koma til greina að lækka skatta á bíleigendur og auka svigrúm fyrir einkavegi. Með því mætti koma í veg fyrir umferðateppur á helstu leiðum á höfuðborgarsvæðinu.
Hið ágæta orð kennari var með lögum nr. 48 frá 1986 tekið traustataki af ákveðnum hópi manna að því leyti að aðeins sumum er heimilt að kalla sig grunnskólakennara eða framhaldsskólakennara. Þurfa menn að hafa lokið ákveðnun prófum í kennslufræðum til að kalla sig grunnskólakennara eða framhaldsskólakennara. Undanfarið hafa nokkrir lögverndaðir grunnskólakennarar og framhaldsskólakennarar gert athugasemdir við að aðrir sem kenna við grunn- og framhaldsskóla skuli kalla sig kennara. Vilja þessir menn að þeir sem gerast svo djarfir að kenna án þess að hafa próf í kennslufræðum eigi að halda sig við heitið leiðbeinandi. Atli Harðarson framhaldsskólakennari andmælir þessu sjónarmiði kollega sinna í grein í Morgunblaðinu á þriðjudaginn og segir: Kennsla er óvenjulegt fag að því leyti að árangur byggist á samspili skapgerðar, iðjusemi, hæfni í kennslugrein, mannþekkingu og margvíslegri kunnáttu í tjáningu, framsetningu efnis og og fleiri greinum. Kennaranám eflir suma af þessum hæfileikum en bara suma og ef aðra hæfileika vantar hrekkur það líklega skammt til að gera mann að góðum kennara. Þeirrar starfshæfni sem menn öðlast með námi í kennaraskóla eða réttindanámi í Háskóla Íslands er einnig hægt að afla með öðrum hætti. Kennsla er líka óvenjuleg að því leyti að það er ósköp fátt sem allir kennarar verða að kunna. Trúlega er best að við hvern skóla starfi kennarar með fjölbreytilega hæfileika og ólíka reynslu.