Greint hefur verið frá því að menningarmálaráðherrar Norðurlandanna hafi skorið upp herör gegn niðurskurði Norðurlandaráðs til menningarmála fyrir næsta ár. Niðurskurðurinn er að vísu ekki mikill, 3,5% frá þessu ári, en greinilega nægur til að þessi þrýstihópur sem ráðherrarnir eru orðnir lætur hraustlega í sér heyra. Því miður vill það henda að ráðherrar telji afrek sín eingöngu felast í að krækja í sem flestar krónur fyrir sinn málaflokk en gleyma að þeir eru fulltrúar alls almennings og þar með skattgreiðenda. Ekki er gott að sjá við þessu en þó má gera ráð fyrir að með því að fækka ráðherrum og sameina ráðuneyti megi spyrna við þessari tilhneigingu.
Fylkingin setti fram hugmyndir fyrir kosningar um að fjölga tekjuskattsþrepum í 5 til 7. Jafnframt boðaði Fylkingin að dregið yrði úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Enginn frambjóðandi Fylkingarinnar útskýrði hvernig hægt væri að koma þessu heim og saman. Í sjónvarpsþætti á Skjá 1 fyrir kosningar lofaði þó frambjóðandi Fylkingarinnar því sérstaklega að útskýra það í blaðagrein hvernig væri hægt að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins um leið og skattþrepum væri fjölgað. Hann hefur ekki enn efnt þetta loforð. En þetta er enn stefna Fylkingarinnar, að minnka jaðaráhrifin með fjölgun skattþrepa!