Þriðjudagur 8. júní 1999

159. tbl. 3. árg.

Á dögunum sendu skattayfirvöld starfsmönnum Landbankans og Búnaðarbankans bréf þar sem þau tilkynntu að gengið sem starfsmennirnir keyptu hlutabréfum í bönkunum á hefði verið undir „markaðsvirði“ og mismunurinn væri skattskyldur. Engin viðskipti höfðu þó farið fram með hlutabréf í bönkunum áður en starfsmennirnir fengu að kaupa bréfin enda bankarnir í eigu ríkisins. Það var því óvissa svo ekki sé fastar að orði kveðið um markaðsvirði þeirra. Er starfsmönnunum sem nýttu sér afsláttinn gert að greiða tekjuskatt af afslættinum auk 25% „álags“.

Þetta leiðir hugann að öðrum afslætti sem starfsmenn ríkisfyrirtækis hafa fengið undanfarna áratugi án athugasemda frá skattyfirvöldum. Lögum samkvæmt eiga allir eigendur viðtækja sem nýta má til móttöku sendinga Ríkisútvarpsins (þ.m.t. Ríkissjónvarpsins) að greiða afnotagjöld til RÚV. Einu undanþágurnar sem lög hafa veitt frá þessari greiðslu eru vegna elli- og örorkulífeyrisþega auk þess sem veita má blindum undanþágu frá afnotagjaldi hljóðvarps. Þrátt fyrir að lögin séu mjög skýr um þetta efni hafa starfsmenn Ríkisútvarpsins fengið þessi lögbundnu gjöld felld niður. Þó hafa margir starfsmanna RÚV talið það sjálfsagt að skylda almenning til greiðslu afnotagjalda en borga þau svo ekki sjálfir! Í kjölfar þess að skattayfirvöld telja sig geta ákveðið markaðsvirði hlutabréfa sem aldrei hafa verið viðskipti með og reiknað af þeim skatt og álag verður þeim vart skotaskuld úr því að reikna skattinn af afnotagjaldahlunnindum starfsmanna RÚV. Þar sem um langvarandi og síendurtekin undanskot er að ræða verður þó líklega flóknara að ákveða „álagið“.

Umhverfisráðherra vill ekki að ráðuneyti sitt sé lítil skúffa og vill þenja það sem mest út. Þetta er skelfileg framtíðarsýn, því ekki gæfulegt þegar ráðherrar hafa það sérstaklega að markmiði að auka við ríkiskerfið. Annað sem Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra vill gera er að skrifa undir Kyoto-samkomulagið ef Ísland fær undanþágur frá því. Ekki er þar um skárri framtíðarsýn að ræða. Kyoto-samkomulagið byggir á þeirri ósönnuðu og líklega röngu fullyrðingu umhverfisöfgasinna að jörðin sé að hitna. Fjölmiðla- og stjórnmálamenn hafa svo gleypt þessa fullyrðingu hráa líkt og ýmislegt annað úr herbúðum þessara öfgamanna. Hafi umhverfisráðherra og aðrir áhuga á að kynna sér önnur sjónarmið um þetta efni er ágætt að byrja á fróðlegri og yfirgripsmikilli heimasíðu eftir Ágúst H. Bjarnason verkfræðing. Þar er m.a. bent á að líklega hafi hiti ekki hækkað á undanförnum árum og að sólin en ekki koltvísýringurinn hafi mest áhrif á hitann á jörðinni. Sýnt er fram á að veruleg fylgni er milli virkni sólar og hitastigs jarðar og að ekki er fylgni á milli magns koltvísýrings í andrúmslofti og lofthita.

Fjöldi erlendra heimilda er til um meintar loftslagsbreytingar af manna völdum. Ein þeirra kallast Global Warming Information Page og er þar að finna ágæta samantekt um málið. Þessi samantekt er stutt og aðgengileg og má þar t.d. lesa um alvarleg efnahagsleg áhrif þess ef farið yrði eftir Kyoto-samkomulaginu. Þar er t.d. vísað í rannsókn sem segir að hagvöxtur í Bandaríkjunum mundi dragast saman um 5% ef farið yrði eftir samkomulaginu. Og þeir sem verst færu út úr ráðstöfunum vegna samkomulagsins væru þeir sem hafa minnst milli handanna, því þeir eyða hlutfallslega stærstum hluta tekna sinna í það sem mundi hækka í verði ef ná ætti markmiðum Kyoto-samkomulagsins.