Í gær gátu sjómenn sem aðrir fagnað því að enginn sjómaður hafði látist við störf sín frá síðasta sjómannadegi. Á síðasta ári lést einn sjómaður við störf og hafa ekki færri látist á einu ári á þessi öld. Ástæðurnar eru auðvitað m.a. þær að áhersla á slysavarnir sjómanna hefur aukist og öryggisbúnaður verið bættur. Annað sem vafalítið hefur fækkað slysum á sjó er kvótakerfið. Þar má t.d. vitna til skrifa blaðsins National Fisherman frá mars á þessu ári, en þar er gerð úttekt á kostum og göllum þessa kerfis. Einn af helstu kostunum er talinn vera að veiðar undir kvótakerfi séu áhættuminni en í kerfum þar sem keppst er við að fylla skipin á sem skemmstum tíma. Slíkt kapphlaup þýði að menn taki óþarfa áhættu og geti því kostað slys á mönnum og jafnvel mannslíf.
Fréttastofur sjónvarpsstöðvanna eiga í harðri samkeppni þessa dagana. Þær gera því báðar sitt besta til að vera með fréttir sem keppinnautnum yfirsést. Og helst harðar fréttir. Eru hagsmunir Ríkissjónvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins hf. auðvitað ekki látnir lita fréttirnar. Í gærkvöldi voru báðar stöðvarnar til dæmis með slíkar fréttir af mikilvægum atburðum. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins sagði ein ítarlega frá því að Græni herinn og Stuðmenn hefðu hafið för sína um landið með komu til ákveðins bæjar og Stuðmenn tekið lagið. Var greinilegt að þetta er alveg frábært framtak sem enginn getur látið framhjá sér fara. Fréttastofa Stöðvar 2 sagði hins vegar ein frá Bylgjulestinni undir forystu Hemma Gunn sem fer um landið en Skítamórall er með í för tekur lagið fyrir landslýð. Samkvæmt frásögn fréttamanns var einnig ljóst að þetta er frábært framtak.
Ríkissjónvarpið er þátttakandi í Græna hernum og Íslenska útvarpsfélagið í Bylgjulestinni.
Vef-Þjóðviljinn minnir á að allur kostnaður við útgáfuna og kynningu á henni er greiddur með frjálsum framlögum. Hér eru upplýsingar um það hvernig styðja má útgáfuna með frjálsu framlagi.