Ýmis framboð bjóðast nú til að gefa almenningi svonefnda velferðarpakka. Velferðarpakki Framsóknarflokksins til almennings á til dæmis að kosta 12 milljarða á næsta kjörtímabili. Þessir rausnarlegu pakkar eru þó frábrugðnir öðrum gjöfum að því leyti að þiggjandinn fær reikninginn fyrir þeim.
Mengunarreglugerð í Bandaríkjunum kvað eitt sinn á um að bæjum og borgum bæri að draga úr útstreymi lífræns úrgangs í ár og vötn um 50% milli ára. Í smábæ nokkrum var nær ekkert útstreymi lífrænna efna í ána sem rann í gegnum bæinn og til að minnka það um 50% hefði þurft að grípa til mjög dýrra aðgerða enda einungis um snefilmagn að ræða sem erfitt er að helminga. Til að fara eftir reglugerðinni þurftu bæjaryfirvöld að fá fiskverksmiðju í næsta bæ til að veita fiskúrgangi í ána. Næsta ár var þetta útstreymi svo minnkað um helming og þar með var mengunarreglugerðinni fullnægt!
Þessi reglugerð kemur upp hugan þegar stefnuskrá Kristilega framboðsins er lesin en þar er kveðið á um að bannað verði að setja hágæðafisk í bræðslu. Nú má sjálfsagt deila um hvað telst vera hágæðafiskur en ef kristilegir komast til valda og þessi regla verður leidd í landslög má búast við því að fiskibræðslur um land allt muni bjóða upp á þá þjónustu að geyma hágæðafiskinn sem að landi kemur við þægilegan hita þar til hann er örugglega ekki lengur hágæðafiskur – þ.e.a.s. þar til reglugerðinni hefur verið fullnægt og óhætt er að bræða.
Í gærkvöldi var frambjóðandi hins nýja Þjóðvaka enn á ný inntur eftir því í sjónvarpsumræðum hversu mikið bensín á fjölskyldubílinn mun hækka þegar það baráttumál framboðsins að leggja koldíoxíðskatt á landsmenn verður að veruleika. Engin svör fengust. Á sama tíma og framboðið boðar þennan nýja skatt reynir það að telja landsmönnum trú um að það ætli sér að bæta hag barnafólks. Þessi skattur mun þó leggjast harðast á barnmargar fjölskyldur með lágar tekjur sem geta ekki án bíls verið og þurfa að nota hann mikið til að ferja börnin í og úr skóla. Þetta fólk notar tiltölulega stóran hluta tekna sinna til reksturs á bíl og getur ekki vikið sér undan skattinum. Hvenær ætla fjölmiðlar að krefjast skýringa á þessari þverstæðu í stefnu framboðsins?