Lögreglumenn í Reykjavík sitja nú myrkranna á milli og skoða þúsundir myndbandsspóla af fólki við kynlífsathafnir. Sem kunnugt er eru þessar spólur hluti af góssi sem lögreglan hirti af myndbandaleigu og er skýringin á því að spólurnar voru teknar sú að efni þeirra mun samkvæmt kenningum yfirvalda stórhættulegt heilsu manna. Hvort lögreglumönnunum sem þennan starfa fá er greidd áhættuþóknun hefur ekki verið upplýst og ekki heldur hitt, hvort þeir verða sendir í áfallahjálp eftir að hafa innbyrt allt þetta vafasama myndefni.
Svipaðar vangaveltur hljóta að vera uppi um starfsmenn Kvikmyndaeftirlits ríkisins, en þeim er gert að horfa á allan þann hrylling sem almenningi er hlíft við. Þeir hljóta því að vera í stórkostlegri hættu og ekki örgrannt um að menn hafi áhyggjur af heilsu þeirra.
Þarna eru því tveir hópar manna í þjóðfélaginu sem gera fátt annað en neyta skaðlegs myndefnis. Hið alvarlega er auðvitað að annar hópurinn er lögreglan sjálf sem á að vernda almúgamanninn fyrir þeim sem orðnir eru skaðlegir umhverfi sínu, m.a. vegna ytra áreitis eins og myndbandagláps. En hver verndar lýðinn ef lögreglan missir stjórn á sér eftir myndbandaglápið? Hlýtur ekki skálmöld að renna upp á Íslandi í kjölfar þessa hræðilega myndbandamáls?
Róbert Marshall fréttamaður á Stöð 2 sló líklega met í fréttaflutningi í gær, en þá hafði hann þefað uppi að Guðmundur Ólafsson lektor við viðskipta- og hagfræðideild hafði fengið símhringingu frá Brynjólfi Sigurðssyni deildarforseta, þar sem Brynjólfur taldi að Guðmundur hefði verið heldur óvarkár í orðavali í fréttum kvöldið áður. En eins og greint var frá hér í gær hafði Guðmundur látið svo um mælt, að búið væri sameina í einn stjórnamálaflokk allt vitlausasta fólkið í efnahagsmálum í landinu.
Róbert þótti sem sagt óskaplega fréttnæmt að Brynjólfur hefði hringt í Guðmund til að ræða orðfæri Guðmundar, en þorði að vísu ekki að spyrja Brynjólf út í ummælin efnislega. Það eru afar óvenjuleg vinnubrögð hjá fréttamanni að reyna með slíkum hætti að sverta viðmælanda sinn og draga úr gildi orða hans. En útkoman úr þessu ævintýri Róberts er þó það, að orð Guðmundar Ólafssonar standa óhögguð.