Hinn ágæti Einar einstaklingur veltir upp nokkrum spurningum í þrasi við vinstrisinnað stak úr samfélagsheildinni í dag á Frelsi.is. Meðal þessara spurninga er hvort það sé ekki æskilegt að menn njóti góðra verka með einhverri umbun. Hvort þeir sem þjóna sambræðrum sínum vel eigi ekki skilið að halda afrakstrinum. Ef háir skattar gera það að verkum að menn njóta ekki afraksturs erfiðisins hljóta að vera minni líkur á því að menn leggi nokkuð erfiði á sig. Í viðskiptum einstaklinga á frjálsum markaði er það reglan að báðir hagnist á viðskiptunum, annars færu þau ekki fram. Bæði kaupandi og seljandi telja sig betur setta eftir viðskiptin en fyrir. Þegar skattur er lagður á seljandann (eða þá vöru eða þjónustu sem hann býður) minnka líkurnar á því að viðskiptin fari fram. Ekki aðeins vegna þess að seljandinn fær minna í sinn hlut heldur einnig vegna þess að hann verður að hækka verðið til kaupandans og við það breytist mat kaupandans á viðskiptunum. Þau eru augljóslega ekki jafnhagstæð og áður en skatturinn kom til sögunnar. Ekki er allur munur á því hvort þessi skattur er nefndur virðisaukaskattur eða tekjuskattur. Hann kemur fram í vöruverði.
Skattar minnka því líkurnar á því að viðskipti eigi sér stað. Skattar draga úr líkum á því að menn leggi sig fram um að þjóna náunganum, bjóða honum býti sem gera báða betur stadda en áður. Framfarir verða einmitt þegar menn sjá möguleika á slíkum býtum. Framfarir á borð við nýjar ódýrar framleiðsluaðferðir eða nýjar vörur skila sér ekki síst til þeirra sem lægstar tekjur hafa. Þá munar svo um munar um lægra vöruverð. Þeir sem vilja hækka skatta í þeim tilgangi að rétta hlut þessa hóps ættu að hafa þetta í huga. Tilgangurinn kann að vera göfugur en leiðin til ánauðar er einmitt vörðuð fögrum fyrirheitum.