Starfslaun listamanna hafa verið nokkuð til umfjöllunar upp á síðkastið enda þykir mörgum rithöfundum það æði hart að aðrir rithöfundar sem þeir keppa við um hylli útgefenda og lesenda séu á launum hjá skattgreiðendum. En það eru ekki aðeins rithöfundar sem kvarta undan þessu styrkjakerfi þar sem mönnum er augljóslega mismunað. Jónas Sen tónlistarmaður ritaði skemmtilega grein um málið í Mannlíf á síðasta ári og birtir greinina á heimasíðu sinni.
Gefum Jónasi orðið þar sem hann lýsir því þegar hann fékk ekki starfslaun og þegar hann fékk þau en hann getur ekki alveg gert upp við sig hvort er verra: En ég fékk engin starfslaun, svo geisladiskurinn minn fyrirhugaði verður bara að bíða um sinn. Og hvað með það? Ég get alveg beðið. Eiginlega er ég hálf-feginn. Ég hef einu sinni áður verið á starfslaunum í heilt ár, og það ár var erfitt. Þetta var frá vorinu 1991 til 1992. Á þeim tíma voru starfslaunin greidd í heilu lagi, sem þýðir að ég fékk tæpa milljón inn á reikninginn minn. Einhver sagði þá við mig að ég ætti að kaupa skafmiða fyrir helminginn. Svona til ávöxtunar. Þetta var engin smáupphæð fyrir fátækan námsmann – ég var að klára mastersnám í London og átti litla peninga fyrir. En svo komu starfslaunin, og til að sanna að ég ætti þau skilið var ég voða duglegur; ég hélt fullt af tónleikum, gerði upptökurnar sem síðar komu út á geisladiskinum mínum 1993, og kláraði flest annað af því sem ég hafði lofað í umsókninni minni. Ég var eiginlega undir allt of miklu álagi; það var ekki nóg með að ég væri sífellt að spila opinberlega, heldur hafði ég stöðugt þessa nagandi tilfinningu að ég þyrfti að sanna að ég ætti þessi starfslaun skilið. Og það var vond tilfinning. Það er ömurlegt að þurfa sýna fram á að maður sé of hæfileikaríkur til að vinna fyrir sjálfum sér eins og annað fólk. Að maður sé eitthvað merkilegri en aðrir. Maður fær þráhyggju fyrir eigin nafla, missir andlegt jafnvægi og tapar tilfinningunni fyrir því hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Mér leið illa allan tímann sem ég var á starfslaununum. En þetta vildi maður.
Það var skrýtin tilfinning að fá neitunarbréf frá úthlutunarnefndinni núna. Reyndar var það líka skrýtið að sækja um starfslaun yfirleitt. Ég fór með umsóknina síðdegis einhverntíman í desember, og allan þann dag og nokkra daga á undan gekk ég um gólf og velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að fara út í þetta. Það eru nefnilega allskyns siðferðilegar spurningar sem tengjast því að vera á starfslaunum. Vill maður vera upp á ríkið kominn, fá pening til að æfa sig nokkra tíma á dag, halda tvenna tónleika um veturinn og gefa út geisladisk? Ég veit það ekki. Það eru ýmsir annmarkar á því að vera á starfslaunum. Maður er öfundaður af þeim sem ekkert fengu, og svo þarf maður alltaf að vera að spila! Og það er meiriháttar mál þegar tónleikarnir eru ekki fleiri en tveir eða þrír á vetri. Markaðurinn þolir því miður ekki meira. Maður kemst aldrei almennilega í æfingu og líður vítiskvalir á undan tónleikunum. Það þarf að vera eins og hver önnur rútína að vera uppi á sviði, ef útkoman á að vera virkilega góð.
Í DV var á dögunum viðtal við forsætisráðherra þar sem hann lýsti meðal annars nýlegu stjórnarsamstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Þótti honum sem kratar hefðu gjarnan átt erfitt með að hemja málgleði sína þegar þeir komust í fjölmiðla. Þórarinn Eldjárn skáld las þetta viðtal og orðaði þessa hugsun með sínum hætti:
Ég kann ekki við krataflón
sem koma í valdsins hallir.
Þeir mega ekki sjá míkrófón
þá mígleka þeir allir.