Það er dálítið kyndugt að hér á landi skuli allt í einu vera sprottin fram stjórnmálahreyfing sem fær rúmlega 30% fylgi í skoðanakönnunum en hefur enga stefnu í utanríkismálum. Skiptir þá ekki máli hvort um ræðir málefni varnarliðsins, NATO, EES, ESB, GATT eða einhvers enn annars. Þessi hreyfing er eins og menn vita hinn nýi Þjóðvaki, sem lagði endurskoðaða stefnuskrá sína fram á dögunum. Stefnuskráin frá því fyrir jól er þar með komin í ruslið, enda ekki hægt að leggja út í kosningar með slíkt plagg. Nú hefur Þjóðvakinn fundið nýja leið út úr málefnaágreiningnum, en hún er að fjalla ekkert um þau mál sem ágreiningur er um. Skiptir þar engu þótt um sé að ræða öll utanríkismál þjóðarinnar eins og þau leggja sig. Þjóðvakinn hefur getað komið sér saman um það eitt að hækka skatta og auka útgjöld eins og vinstri manna er siður.
Á fundi um utanríkismál í gær sagði fulltrúi Þjóðvakans, Árni Þór Sigurðsson, að hann hefði um langt skeið verið herstöðvaandstæðingur og á móti NATO og væri það enn. Árni Þór viðurkenndi að ekki væri eining innan framboðs hans um þessi mál, en þó er vitað að sá sem Sighvatur Björgvinsson valdi til þess að vera sérstakur talsmaður framboðsins, Margrét Frímannsdóttir, er harður andstæðingur varnarsamstarfs Vesturlanda og hefur alla tíð verið. Eins og menn muna átti fulltrúi Þjóðvaka í utanríkismálanefnd Alþingis heiðurinn af utanríkismálakaflanum í plagginu sem varð Þjóðvaka til skammar í haust. Hann tók hins vegar engan þátt í að verja klúðrið heldur lét Margréti og Sighvat taka skellinn. Hann fékk hins vegar sjálfur skell í prófkjöri Þjóðvakans og mátti þakka fyrir að ná sæmilega líklegu þingsæti. Síðan hefur Össur Skarphéðinsson ekki opnað munninn um utanríkismál.
Svanfríður Jónasdóttir tapaði fyrir Sigbirni Gunnarssyni í prófkjöri Þjóðvaka á Norðurlandi eystra. Svanfríður krafðist endurtalningar um leið og úrslit lágu fyrir en þegar það dugði ekki hófu stuðningsmenn hennar að væna Sigbjörn um að hafa gert það sem Helgi Hjörvar og Hrannar Arnarsson eru frægir fyrir. Það dugði til að hrekja Sigbjörn úr sætinu. Undanfarna daga hefur Svanfríður svo verið að hugsa málið hvort hún ætti að taka sæti Sigbjörns. Einmitt.
Lýðræðisást Þjóðvaka og virðing fyrir leikreglum lýðræðisins koma æ betur í ljós. Sigbjörn Gunnarsson fékk að kenna á lýðræðisástinni um daginn og í gær sást hver skoðun Ágústs Einarssonar er á þessum leikreglum. Verið var að rjúfa þing þegar hann sigldi undir fölsku flaggi upp í ræðustól þingsins og hóf árásir á ríkisstjórnina þrátt fyrir að fyrir hefði legið að slíkum umræðum væri lokið á þinginu þetta vorið.