Í Morgunblaðinu birtust á fimmtudaginn var, tvær litlar fréttir sem báðar snertu ríkisfjármálin, þó ekki verði sagt að þær hafi gengið í sömu átt. Á blaðsíðu 4 var haft eftir Yngva Harðarsyni, hagfræðingi hjá Ráðgjöf og efnahagsspám, að hann sé sammála Þjóðhagsstofnun um það að brýn þörf sé á aðhaldi í opinberum fjármálum og á blaðsíðu tvö var greint frá því skipuð hefði verið “undirbúningsnefnd” vegna byggingar tónlistarhúss í Reykjavík.
Er Vefþjóðviljinn nú enn að tala um þetta tónlistarhús? kann einhver að andvarpa, og bæta við: Er ekki búið að ákveða að byggja þetta hús? Er nokkur ástæða til að tala meira um það? Ekki væri undarlegt þó lesandi hugsaði á þennan veg, enda er því nú markvisst haldið að fólki að tónlistarhússmálið sé afgreitt, útrætt og orðinn hlutur. Stafar sá áróður af því, að þeir sem harðast hafa barist fyrir því að tónlistarhús verði reist fyrir skattfé, vita vel á hvaða sandi kröfur þeirra eru reistar. Þess vegna reyna þeir nú að keyra málið í gegn án frekari umræðna. Því tala þeir gjarnan um að ríkið hafi skuldbundið sig til að byggja þetta hús. Þó sjá flestir aðrir að allt tal um skuldbindingu ríkisins til slíks er tóm vitleysa. Í fyrsta lagi er afar vafasamt að menntamálaráðherra geti án samþykkis alþingis bundið ríkið með þeim hætti og í öðru lagi þá á hið opinbera hér engan gagnaðila sem byggt getur rétt á þessari skuldbindingu.
Þetta má útskýra með einföldum hætti. Ef nýr maður settist í stól menntamálaráðherra og kæmist að því að til stæði að ríkið byggði hús fyrir mörg þúsund milljónir króna undir sinfóníuhljómsveit og hrópaði upp yfir sig: Hei hvað er um að vera í þessu ráðuneyti? Hvaða rugl er þetta? Við erum ekki að fara byggja neitt tónlistarhús! – heldur þá einhver að hægt yrði að stefna ríkinu og fá það dæmt til að byggja húsið? Auðvitað ekki, ríkið hefur ekki skuldbundið sig gagnvart neinum til að byggja tónlistarhús.
En málið snýst ekki bara um þessar þúsundir milljóna sem tónlistarhúsið kostar. Þetta hús er meira en tónlistarhús. Húsið er orðið að tákni fyrir frekju hagsmunahópanna og hvaða árangri þeir geta náð með heimtufrekju. Verði húsið byggt eru það verðlaun til allra þeirra sem í taumlausu yfirlæti gera látlausar kröfur um fjárframlög úr opinberum sjóðum. Verði bygging hússins stöðvuð eru það hins vegar skilaboð sem kröfugerðarmenn og styrkjakröfumenn geta ekki misskilið. Þess vegna er baráttan gegn því að hið opinbera beri kostnaðinn af tónlistarhúsinu feiknarlega mikilvæg og þess vegna verður henni haldið áfram að minnsta kosti þangað til húsið er risið.