Miðvikudagur 24. mars 1999

83. tbl. 3. árg.

Reykjavíkurborg R-listans hefur þá stefnu í jafnréttismálum að ráða ekki karlmenn til starfa. Stefnan er ekki orðuð nákvæmlega með þessum hætti, en körlum er engu að síður gert ljóst þegar auglýst er laust starf hjá borginni að konur gangi fyrir. Um þessa „jafnréttis“stefnu má nefna tvö ný dæmi, þar sem ráðið var í stöður „menningarstjóra“ og „framkvæmdastjóra miðborgarinnar“. Í bæði störf verða ráðnar konur og þó sú sem fær starf menningarstjóra virðist í sjálfu sér hæf til þess furðulega starfs, er ekki hægt að segja það sama um hina konuna í hitt starfið.

Þar er um að ræða að Kristín Einarsdóttir lífeðlisfræðingur er ráðin til að vera framkvæmdastjóri miðborgarinnar og kemur það ýmsum spánskt fyrir sjónir. Ekki er gott að sjá að lífeðlisfræðin muni nýtast vel við stjórn miðborgarinnar, en væntanlega álítur borgarstjóri að reynsla af þingmennsku fyrir Kvennalistann sé óviðjafnanleg og ómissandi í slíku starfi. Rökstuðningur með ráðningunni er annars afar fátæklegur og er þar meira að segja tínt til að hún tali og skrifi ensku og norsku og tali þýsku! Þar með hljóta allir að hafa sannfærst um að enginn var hæfari til starfans, enda verður framkvæmdastjóri miðborgarinnar að geta rætt við þýska ferðamenn um bílastæðavandann.

Halldór Blöndal samgönguráðherra lagði á það áherslu á aðalfundi Landssímans hf. í gær að selja þyrfti hlutabréf ríkisins í fyrirtækinu sem fyrst. Halldór hefur áður lýst þessari skoðun sinni og er gott til þess að vita að stjórnvöld sýna því skilning að best fer á því að fyrirtæki séu í einkaeigu en ekki í eigu hins opinbera. Aðspurður um horfurnar varðandi sölu sagðist Halldór telja að ekki skipti máli hverjir verða í næstu ríkisstjórn, allir muni vilja selja.

Þarna er Halldór líklega heldur bjartsýnn, því hæpið er að draga þær ályktanir af orðum og gjörðum vinstri manna þegar einkavæðing er annars vegar að þeir muni styðja sölu Landssímans. Þetta á sérstaklega við um leiðtoga hins nýja Þjóðvaka, Jóhönnu Sigurðardóttur, en hún hefur allt á hornum sér þegar einkavæðing er annars vegar. Henni tókst til dæmis að koma í veg fyrir einkavæðingu á fjármagnsmarkaði þegar hún sat í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og hefur síðan mótmælt kröftuglega öllum hugmyndum um að hið opinbera minnki umsvif sín í atvinnulífinu. Með aðstoð Margrétar Frímannsdóttur, formanns Alþýðubandalagsins og talsmanns Þjóðvaka, mun Jóhanna stöðva allar hugmyndir um einkavæðingu og aðrar framfarir komist hún í þá aðstöðu eftir kosningar.