Þjóðvaki nefndi sig hreyfingu fólksins fyrir síðustu kosningar og fékk 7% atkvæða. Í gærkvöldi var Kristín Halldórsdóttir, sem kjörin var á þing fyrir Kvennalistann í síðustu kosningum, valin í fyrsta sæti framboðslista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Reykjanesi. Nýlega fréttist að VG hefði ráðið sér kosningastjóra í Reykjavík en hann þurfti að vísu að segja af sér sem formaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Ögmundur Jónasson þingmaður Alþýðubandalags og óháðra leiðir lista VG í Reykjavík og þar er Hjörleifur Guttormsson sem ýmsir hafa haldið fram að sé til vinstri í pólítík í þriðja sæti. Kristinn H. Gunnarsson sem kjörinn var á þing fyrir Alþýðubandalagið leiðir lista Framsóknarflokksins á Vestfjörðum. Sigbjörn Gunnarsson fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins og sigurvegari í prófkjöri Þjóðvaka um daginn hefur verið settur út fyrir. Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi varaformaður Alþýðubandalagsins leiðir lista VG í Norðurlandi eystra. Víðs vegar um land hlaupa sveitarstjórnarmenn úr sínum gömlu flokkum yfir í VG og Framsóknarflokkinn. Hvergi er gefið eftir í klofningi. Jafnvel vinsælir barnabókarhöfundar lýsa því yfir er þeir rjúka á dyr að þeir séu hættir að skúra fyrir strákana í jafnréttisflokkunum.
Og nú þykir Þjóðvaka hreyfingu fólksins rétt að skipta um nafn og nefnir sig auðvitað Samfylkingu vinstri manna. Nema hvað?
Þriðjudagur 23. mars 1999
82. tbl. 3. árg.